136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:41]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reikna með að hv. þm. Mörður Árnason sé að vísa til þess að ég var ekki í Sjálfstæðisflokknum þegar þær styrkveitingar frá FL Group og Landsbanka Íslands voru veittar til hans, sem hv. þingmaður nefndi. Hins vegar verður það sama ekki sagt um hv. þm. Mörð Árnason, hann var í Samfylkingunni þegar hún tók við meiri og stærri fjárhæðum frá Baugi, sem ber nú mesta ábyrgð á efnahagshruninu á Íslandi, þ.e. hann var í Samfylkingunni þegar þessar styrkveitingar áttu sér stað og ber því fulla ábyrgð á því ásamt fyrrverandi formanni sínum, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hér er að vísu ekki lengur til andsvara.

Varðandi það að hér hafi verið um einhverja ósæmilega tilvitnun að ræða sem ég gat um í ræðu minni þegar ég vísaði í hið þekkta verk Georges Orwells, Animal Farm, sem var nú skrifað eftir að George Orwell fór í heimsókn til fyrirmyndarríkis vinstri manna á sínum tíma, kommúnistaríkisins Sovétríkjanna. Eftir það skrifaði George Orwell bókina Animal Farm, þar sem ekki var verið að vega að einhverri stétt eða einhverju þar. Það er ámátlegur útúrsnúningur að taka það þannig fyrir.

Það sem George Orwell var að benda á — og þar kom samlíkingin mín í málið — var að það er nú einu sinni þannig að hjá valdstjórnarflokkum og valdstjórnarríkjum eru borgararnir metnir með misjöfnum hætti. Sumir eru æðri og merkilegri og eiga frekar að fá ákveðna hluti en aðrir. Það var sú tilvísun sem ég var ræða um, sérstaklega með tilliti til þeirra orða sem hæstv. menntamálaráðherra viðhafði á framboðsfundi sem sjónvarpað var í gær þar sem talað var um lækkuð laun og hækkaða skatta, sem mér fannst vera úr öllum takti miðað við það sem hér er verið að leggja til.