136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:45]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. Merði Árnasyni á að hver einasti talsmaður flokks talar með einum eða öðrum hætti fyrir munn síns flokks. Menn eru hins vegar bundnir af þeim flokkssamþykktum sem gerðar eru, það liggur fyrir. Í stórum flokkum, eins og við erum báðir í, ég og hv. þm. Mörður Árnason, rúmast fleiri en ein skoðun, eins og hv. þingmaður þekkir. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Mörður Árnason vísaði til sjónarmiða varðandi pólitískan feril Georges Orwells en hann kann betur hin marxísku færði, reikna ég með, en ég geri, þó að ég hafi skoðað ákveðin inngangsatriði hvað það varðar. Þetta rit og sá útúrsnúningur sem hv. þm. Mörður Árnason var hér með, að tala um að verið væri að líkja hæstv. menntamálaráðherra við félaga Napóleon, sem er þekktur í þessari sögu, eða listamönnum við þá dýrategund sem fór með æðstu stjórn í Dýrabænum, er að sjálfsögðu hrein rangtúlkun á orðum mínum. Þegar ákveðin myndræn líking er notuð er ekki verið með samlíkingu hvað varðar umfjöllunarefni frumvarpsins. Samlíkingin náði ekki lengra en til þeirra orða sem hæstv. menntamálaráðherra lét falla í þeim umræðum sem um var að ræða og fóru fram og var sjónvarpað í gær, þ.e. um það að það ætti að hækka skatta og lækka laun, það var meginatriðið sem ég var að tala um. Það er verið að fjölga þeim sem eiga að njóta listamannalauna með því frumvarpi sem hér er um að ræða, það liggur alveg fyrir að það er verið að fjölga þeim. Það þýðir, og það er meginatriðið og það var það sem ég var að vekja athygli á, að verið er að hækka útgjöld ríkisins.