136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:08]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er komið til 3. umr. frumvarp til laga um listamannalaun en það frumvarp hefur legið fyrir þinginu til meðferðar og skoðunar. Það er kannski tímanna tákn um þær áherslur sem hér eru lagðar á vegum ríkisstjórnarinnar að lagt skuli vera fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um listamannalaun sem fela það annars vegar í sér að breyta lögum og fjölga þeim sem eiga aðgang að þessum sjóðum og um leið að tæma sjóði sem til voru á vegum menntamálaráðuneytisins til þessara verkefna en að öðru leyti gera út á lántökur. Af því að hv. 2. þm. Suðvest., hv. formaður fjárlaganefndar, gengur hérna fyrir ræðupúltið er ástæða til þess að rifja þetta upp. Það er verið að breyta lögum um listamannalaun og gera ráð fyrir lántöku. Enginn aur sjáanlegur, engin tekjuöflun, engin aukin tekjuöflun, eingöngu gert út á það að ríkissjóður taki meiri lán til þess að geta staðið við þær skuldbindingar.

Hér horfi ég á hæstv. heilbrigðis- og tryggingaráðherra sitjandi við hliðina á hæstv. menntamálaráðherra og væri fróðlegt að hafa fylgst með umræðum milli hæstv. ráðherra um þessi áform, annars vegar áform hæstv. heilbrigðisráðherra um niðurskurð, stórfelldan niðurskurð og lækkun framlaga til heilbrigðiskerfisins, og svo hins vegar tillögur hæstv. menntamálaráðherra sem leggur hér til með nýrri löggjöf aukin útgjöld úr ríkissjóði og gerir ráð fyrir áframhaldandi lántökum til að geta staðið við þessar skuldbindingar. Þetta er ótrúlegur tillöguflutningur, hæstv. forseti. Ég er ekki hissa þó að hv. þm., 6. þm. Norðvest., Guðjón Arnar Kristjánsson, horfi til mín í forundran, að hlusta á þessar staðreyndir máls.

Auðvitað er það skemmtilegt og ánægjulegt viðfangsefni að geta fjölgað þeim listamönnum sem geta sinnt list sinni í skjóli ríkisins. Það er verðugt verkefni um stundarsakir vonandi, á meðan þeir eru að koma sér á flot, skapa sér stöðu, skapa sér nafn og skapa sér aðstöðu til þess að sinna listinni. Síðan verður auðvitað að gera ráð fyrir því að sá dagur renni upp að listin hafi borið þann árangur að hún geti orðið meira sjálfbær en svo að það sé og þurfi að vera eilífðarásetningur ríkisins að halda fólki á listamannalaunum til þess að það geti haft framfæri. Það geta ekki verið áform okkar hér á Alþingi að standa þannig að málum.

Þess vegna hljótum við að skoða þetta frumvarp í því ljósi að hér er um sýndarmennsku að ræða. Það er verið að blekkja listamenn rétt fyrir kosningar til þess að styðja stjórnarflokkana vegna þess að þeir séu að leggja fjármuni til stuðnings listgreinum í landinu. Þetta er óvenjulega ófyrirleitin framganga af hálfu stjórnmálaflokka og ég fordæmi slík vinnubrögð þegar á sama tíma er verið að berjast við að halda úti og verja heimilin í landinu. Það er ótrúlegt að hv. þingmenn skuli standa að þessum tillöguflutningi hér. Hvernig sem á það er litið, hversu jákvæð sem við viljum vera gagnvart listinni, auðvitað viljum við það öll hér í þinginu, en það eru takmörk fyrir þeim blekkingum sem hægt er að standa fyrir í aðdraganda kosninga. Þetta frumvarp er ekkert annað en enn einn blekkingaleikur Vinstri grænna sem standa fyrir því að reyna að telja fólki trú um að það sé verið að byggja upp atvinnulíf með auknum framlögum til listamannalauna í þeim tilgangi að auðvelda listamönnum að sinna list sinni.

Það er sorglegt að fylgjast með því að hæstv. heilbrigðis- og tryggingaráðherra og nú hæstv. menntamálaráðherra skuli ganga úr salnum undir þessum orðræðum vegna þess að þau treysta sér ekki til þess að horfa framan í þessa staðreynd um blekkingaleik, blekkingaleik stjórnmálamanna sem eru við völd nú um sinn og eru að nota ríkissjóð og gera út á lántökur í framtíðinni til þess að geta gefið þessi fögru loforð núna rétt fyrir kosningar.

Ég hafði þau orð við 2. umr. um þetta frumvarp að mér þætti þetta athyglisvert og allt hin ágætustu áform en þegar mér varð það ljóst að þrátt fyrir meðferð í nefndinni á milli 1. og 2. og 2. og 3. umr. væru engin batamerki af hálfu ríkisstjórnarinnar um það að reyna að tryggja þessum útgjaldaáformum traustari undirstöður en þær sem hér er gert ráð fyrir, að fjölga fólki á listamannalaunum gegn því að ríkissjóður taki lán.

Það er ástæða til þess að rifja það upp sem hér stendur í umsögn um þetta frumvarp frá fjármálaráðuneytinu. Hæstv. fjármálaráðherra, sem nú ásamt hæstv. menntamálaráðherra boðar launalækkun ríkisstarfsmanna um leið og boðuð er hækkun á sköttum landsmanna, á þeirra vegum er lagt fram frumvarp þar sem fjármálaráðherra segir frá því að það verði að taka lán fyrir pakkanum. Þetta eru vinnubrögð sem eru hreint með ólíkindum.

Umsögn frá fjármálaráðuneytinu um frumvarpið sem hér um ræðir, með leyfi forseta, er svohljóðandi:

„Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að þeim mánaðarlaunum sem úthlutað er sem starfslaunum fjölgi á þriggja ára tímabili um alls 400 þannig að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú. Í öðru lagi er lögð til sú breyting að mánaðarlaun starfslauna verði ákveðin upphæð, 266.737 kr., sem taki mið af breytingum á fjárlögum hvers árs. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir tveimur nýjum launasjóðum, fyrir hönnuði og sviðslistafólk, og að heiti á Tónskáldasjóði verði breytt í Launasjóð tónlistarflytjenda. Í fjórða lagi er lagt til að stjórn listamannalauna fái heimild til að flytja umsóknir á milli launasjóða. Í fimmta og síðasta lagi er gerð breyting á störfum stjórnarinnar, m.a. varðandi mótun stefnu og áherslna við úthlutun.

Helstu ákvæði sem gætu haft áhrif á útgjöld ríkisins eru fjölgun mánaðarlauna um 400 eða úr 1.200 mánaðarlaunum í 1.600 á þremur árum. Miðað við núgildandi mánaðarlaun listamanna sem eru 266.737 kr. mun fjölgun um 400 mánaðarlaun þýða samtals aukningu um 107 millj. kr. á útgjöldum ríkisins. Hækkunin skiptist þannig að árið 2010 fjölgar mánaðarlaunum um 145 eða samtals 38,7 millj. kr., árið 2011 er fjölgunin 130 mánaðarlaun eða 34,7 millj. kr. og árið 2012 er fjölgunin 125 mánaðarlaun eða 33,3 millj. kr. Einnig gætu útgjöld ríkissjóðs aukist vegna aukinnar umsýslu vegna fjölgunar mánaðarlauna og vinnu við stefnumörkun. Talið er að sú aukning vegna umsýslu sé þó óveruleg.

Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Vegna mikils halla á ríkissjóði mun því þurfa að fjármagna útgjöldin með lántökum.“

Ef við gengjum eins til verks gagnvart öllum hugsanlegum áhugamálum okkar er alveg augljóst hvert vinstri stjórnin sem er við völd og vill fá umboð kjósenda í næstu kosningum til þess að starfa áfram, mun stefna. Hún mun stefna í þá átt að auka ríkisútgjöldin. Að vísu eru áform uppi hjá hæstv. menntamálaráðherra um að lækka laun ríkisstarfsmanna þannig að það kann að vera að hún nái þar útgjaldalækkun til að geta jafnað þetta út, þetta eru svo sem ekki stórar fjárhæðir, en það er alveg ljóst að hér er tiltekin stefnumörkun á ferðinni hvað ríkisútgjöld varðar.

Engu að síður og ef aðstæður hefðu verið með öðrum hætti hefði auðvitað átt að forgangsraða og ég er ekki í vafa um að það væri hægt að hagræða með ýmsum hætti í ríkisrekstrinum til þess að tryggja grundvöll þessara útgjalda, tryggja grundvöll þess að hægt væri að halda úti stuðningi við listamenn eins og frumvarpið gerir ráð fyrir og samkvæmt þeim grunni sem var lagður á sínum tíma, 1991, þegar upphaflegu lögin voru samþykkt. Það er auðvitað partur af þeirri stefnumótun sem fyrri ríkisstjórnir settu fram og settu upp, að tryggja þennan stuðning við listamenn. Ég hef verið stuðningsmaður þess og það er partur af þeirri fortíð sem við sjálfstæðismenn erum svo stoltir af, að hafa getað eflt mennta-, menningar- og listalíf í landinu með margs konar aðgerðum af hálfu ríkisins, en við höfum lagt áherslu á að tryggja að fyrir því væri innstæða og það er það sem við sjálfstæðismenn gagnrýnum núna að það er engin innstæða fyrir þeirri viðbót sem hér er á ferðinni. Ég vænti þess að hæstv. menntamálaráðherra skýri það betur út í umræðunni hvernig hún hugsar sér í framtíðinni að tryggja að þetta komist fyrir innan ramma ráðuneytis síns, því ef eins er farið að á öllum sviðum, öllum þáttum útgjalda og rekstrar í menntamálaráðuneytinu, að gert sé ráð fyrir að útgjöld séu jöfnuð með lántöku, mun auðvitað horfa til mikilla vandræða.

Ég sé að menntamálanefnd hefur ekki verið einróma í stuðningi við þetta og er vísað til þess af hálfu 2. minni hluta menntamálanefndar að það hefði þurft að tryggja fjármuni til þess að forsvaranlegt væri að standa fyrir þessum auknu útgjöldum. Að öðru leyti óska ég hæstv. menntamálaráðherra alls hins besta í hennar mikilvæga starfi þá fáu daga sem ríkisstjórnin á eftir að starfa hér og veit af góðum vilja hennar til þess að sinna þeim verkefnum sem á vettvangi menntamálaráðuneytisins eru og við höfum átt orðræður um af því tilefni að fyrr var rætt um þetta frumvarp og til margs að vísa í þeim efnum. En við hljótum við þessa umræðu, þegar svo háttar til um hag ríkissjóðs, að skoða bæði stórt og smátt og umfram allt gefa ekki undir fótinn um stuðning sem er ekki byggður á traustari grunni en hér ber við.

Það er afar mikilvægt að við þingmenn leggjum þær línur nú á síðustu dögum þingsins að við sýnum ábyrgð í öllum ákvörðunum okkar og ekki síst þegar kemur að ríkisútgjöldum, skattlagningarheimildum og öðru er það varðar. Það ber að harma að nú skuli heyrast úr herbúðum vinstri stjórnarinnar að bæði eigi að ráðast gegn heimilunum með launalækkunum og skattahækkunum. Það eru þau skilaboð sem við fáum þessa dagana og það eru þau skilaboð sem kjósendur í landinu þurfa að taka vel eftir þegar þeir ganga að kjörborðinu.