136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:30]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki tekið undir þann málflutning sem hér er viðhafður. Ég lít ekki svo á að listamenn á Íslandi hafi þegið mola af borðum einhverra. Ég tel að listamenn á Íslandi sem hafa tekið að sér verkefni á vegum einkaaðila hafi verið að leggja fram verðmæta vinnu, verðmætasköpun og list en ekki að þiggja ölmusu. Ég lít ekki þannig á. Það er fjarri því.

Hafi listamenn þegið laun frá fyrirtækjum eða velmegandi fólki hefur það verið fyrir verðmæta vinnu. Þannig vil ég líta á þetta. Ég lít ekki svo á að listamannalaun séu ölmusa. Ég vona að hv. þingmenn Vinstri grænna líti ekki svo á að við séum að fjalla hér um ölmusu. Það mætti líta svo á miðað við orð hv. þingmanns. Þetta er stuðningur við sköpun listamanna á mörgum sviðum. Ég tel að ýta eigi undir hann en það á ekki að gefa falskar vonir og það er það sem ég gagnrýni.

Ég tel að við hljótum að fagna því ef efnahagur fyrirtækja og hins opinbera á undanförnum árum hefur verið svo góður að hægt hafi verið að auka framlög til verkefna. Sem dæmi er til Listskreytingasjóður og honum er ætlað að styrkja vinnu við listsköpun í tengslum við opinberar byggingar. Ég tel að það sé af hinu góða, það er ekki ölmusa. Það er verið að kaupa verk, hugverk af mörgu tagi af öflugu, traustu og góðu listafólki. (Forseti hringir.) Ég hvet til þess að ekki sé verið að setja (Forseti hringir.) stuðning við listamenn með listamannalaunum í það samhengi að það sé ölmusa. Því fer fjarri.