136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:41]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrstu segja að ég hafna því alfarið að þetta frumvarp sé sýndarmennska og mér finnast þau orð hv. þm. Sturlu Böðvarssonar ekki við hæfi. Eins og hv. þingmanni er kunnugt byggir þetta frumvarp á grunni frumvarps frá forvera mínum í starfi, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, og má segja að ég hafi tekið við keflinu af henni, ekki síst í ljósi hins erfiða efnahagsástands sem nú er sem hefur haft mjög slæm áhrif á stöðu ýmissa listamanna. Við ræðum hér líka mikið um atvinnusköpun og ég tel að menningargeirinn eigi þar ekki vera undanskilinn.

Segja má að hagræn áhrif menningargeirans séu mikil á Íslandi. Við höfum séð vaxandi útflutningstekjur af þessum geira, við höfum séð mjög blómlegt menningarlíf á Íslandi sem við getum verið stolt af hvort sem litið er til bókmenningar okkar, tónlistarlífs eða myndlistarlífs, leikhúsanna, til kvikmyndanna sem hafa borið hróður okkar víða, og annars slíks þannig að ég tel að við megum ekki vanmeta hagræn áhrif menningarinnar.

Hvað varðar fjármögnun benti hv. þm. Sturla Böðvarsson sjálfur á í 2. umr. um þetta mál að ég hefði tekið við góðu búi af forvera mínum þar sem til eru fjárveitingar upp á 89 milljónir í þessum sjóðum, fjárheimildir sem ekki hafa verið nýttar. Hins vegar er rétt að það eru aukin útgjöld þarna til þriggja ára a.m.k upp á 17 millj. kr. og auðvitað í framhaldinu. Það lá alveg ljóst fyrir frá byrjun að ekki væri búið að tryggja fjármögnunina eftir þessi þrjú ár.

Ég lít hins vegar svo á að listamannalaun séu mjög mikilvæg hreinlega út frá menningarlegum rökum. Hér hefur verið nefnt í umræðunni að listin eigi að geta staðið undir sér og borgað sig en einnig hefur verið bent á að okkur sem er annt um okkar bókmenntir og ritmenningu, það yrði kannski lítið úr henni ef ekki væri einmitt t.d. fyrir Launasjóð rithöfunda. Þá vil ég bara nefna það dæmi sem Rithöfundasambandið hefur lagt fram um tekjur rithöfunda af bók sem kostar 4.500 kr. út úr búð og þykir mörgum dýrt. Ef það tekur rithöfund tvö ár að skrifa skáldsögu, sem er ekkert óeðlilegur tími, og bókin selst í þúsund eintökum, sem þykir ekki slæmt, þýðir það höfundarlaun upp á 625 þús. kr. sem verða árslaun upp á 300 þús. kr. Ég leyfi mér að segja að rithöfundar þessa lands gætu hreinlega ekki starfað eingöngu út frá markaðsforsendum í þeim geiranum þannig að það er mjög erfitt að hafa lífsviðurværi sitt eingöngu af því. Ég tel því að það séu mjög mikil menningarleg rök fyrir þessu.

Við höfum líka oft rætt í þessum sal um íslenska málstefnu. Hún hefur verið samþykkt hér sem þingsályktunartillaga og rætt hefur verið um að við þurfum að fella ýmislegt í lög sem henni tengist. Það hefur verið viðurkennt að það kostar að viðhalda jafnlitlu málsvæði og við búum á upp á rúmlega 300 þúsund hræður sem tala sitt sérstaka tungumál. Ég held að bókmenning, ég ætla sérstaklega að nefna hana, skipti þar höfuðmáli, að við lesum góðar bækur á íslensku og höldum áfram að skrifa bækur á íslensku. Það kostar vissulega og ég held að hið opinbera hafi ákveðnum skyldum að gegna í því samhengi, ekki síst í ljósi þess að það eru sennilega ekki miklar markaðsforsendur fyrir bókaútgáfu eða fyrir rithöfund að lifa af list sinni. Við höfum séð að þeir höfundar sem náð hafa árangri í gegnum árin, ég nefni Nóbelsskáldið okkar sem dæmi — auðvitað var hann iðulega á launum frá ríkinu og ekki hefðum við viljað sleppa því, og sama má segja um aðra höfunda.

Það er líka rétt sem hér hefur verið nefnt að ekki er verið að hækka launin sem þó var í upphaflegum tillögum sem miðuðust við annað efnahagsástand. Hér er reynt að fara eins þröngt fram og hægt er miðað við þessa fjölgun, að nýta þær heimildir sem þó eru til staðar og veittar hafa verið og fjölga þannig mánaðarlaununum um 400. Það er líka rétt að þeim hefur ekki fjölgað frá því 1997.

Mig langar líka að minna á að hér er verið að gera ákveðnar breytingar á sjóðunum bæði hvað varðar sviðslistarfólk, tónlistarflytjendur og hönnuði. Það er nýlunda sem ég held að skipti miklu máli fyrir listalífið, að fá sérstaka sjóði fyrir þessar greinar. Verið er að gera ýmsar breytingar á starfsumhverfi listamanna um leið, t.d. hvað varðar réttindi listamanna, en eins og hér hefur einnig verið bent á hefur réttur þeirra til atvinnuleysisbóta verið ákveðnum vandkvæðum háður, svo sem til fæðingarorlofs og annarra slíkra opinberra réttinda.

Það er nokkuð ljóst að hér hafa menn að sjálfsögðu áhyggjur af fjármögnuninni og auðvitað snýst þetta líka um ákveðna forgangsröðun. Það liggur ekki fyrir að það þurfi endilega að taka lán til að mæta þessari fjölgun, hins vegar snýst þetta um hvernig við nýtum það fjármagn sem við höfum. Mín skoðun er sú að það að greiða listamönnum fyrir að sinna menningarstarfi sínu sé besta nýting á fjármagni sem við höfum því að ekki má gleyma því að þeir styrkir sem veittir eru, eru ekki veittir út frá neinum öðrum forsendum en faglegum og það eru fagnefndir sem velja þau verkefni sem eru styrkt. Það miðast við verkefnaáætlanir listamanna, þar er metinn ferill listamannanna fram að því og þau verkefni sem þeir sinna. Og ekki síst vegna þessara launa höfum við síðan horft á framgang íslenskra listamanna á alþjóðavettvangi. Ég nefni sem dæmi íslenska myndlistarmenn, ég nefni rithöfunda, ég nefni kvikmyndagerðarmenn og tónlistarmenn. Við sjáum að íslenskir tónlistarmenn hafa skapað sér ótrúlegan sess, ég get nefnt Sinfóníuhljómsveitina sem dæmi og hennar merka árangur með Grammy-verðlaunatilnefningu, en við sjáum líka aðra tónlistarmenn skapa sér alþjóðlegan sess og þetta er hluti af því.

Þetta er auðvitað grundvallarspurning: Hvað á ríkið, hið opinbera, að gera á krepputímum? Á það þá að skera niður í menningarmálum. Auðvitað verður að skera niður á öllum sviðum en ég held ekki að menninguna eigi að klippa burt, ég held að við verðum að horfa á það hvernig við forgangsröðum. Ég tel þetta góða nýtingu á fjármagni og ég tel mjög mikilvægt að við stöndum vörð um menninguna á svona tímum.

Margir hafa spurt mig hvort það sé ekki óþarfi á krepputímum og ég er alveg handviss um að svo er ekki því að þetta er eitt af því sem við byggjum okkar sjálfsmynd á. Þetta er eitt af því sem ég mundi kalla brýnt mál fyrir Íslendinga, að hér standi menningarstarf með blóma. Þetta er eitt af því sem tryggir búsetu í landinu. Og af því að hv. þm. Sturla Böðvarsson nefndi hér áðan menningarsamninga við einstök svæði landsbyggðarinnar tel ég að þeir séu einmitt gott dæmi um það hvernig menning hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á búsetuskilyrði víðast hvar um landið. Það hefur fólk um allt land rætt um við mig eftir að ég tók við ráðherraembætti mínu að menningin hefur skipt miklu máli fyrir búsetuskilyrðin á svæðinu. Við skulum því ekki vanmeta þátt menningarinnar í því sem gerir okkur að samfélagi, hún er hluti af innviðum samfélagsins sem við megum ekki vanrækja og sérstaklega ekki á krepputímum. Og af því að hér var rætt um hlut einkaaðila þegar kemur að listamönnum er alveg ljóst að það eru margir slíkir sem halda að sér höndum um þessar mundir sökum erfiðs árferðis og stykja ekki listamenn og þá tel ég að hið opinbera hafi ákveðnum skyldum að gegna.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið en vil þó bara minna á að hér er um að ræða heimildir upp á 89 milljónir sem hafa verið veittar og ekki nýttar þannig að þessi útgjaldaauki upp á 17 milljónir mun ekki falla fyrr en á árinu 2012. Ég minni líka á að í frumvarpinu er kveðið á um að þetta verði endurskoðað m.a. út frá efnahagsástandi og það liggur alveg fyrir að við fjárlög hvers árs þarf að vega það og meta. Ég legg áherslu á að við höfum í huga hin menningarpólitísku rök í þessu máli sem ég held að þingmenn úr öllum flokkum geti verið sammála um að skipta miklu máli. Þetta er hluti af samfélagsinnviðum okkar og ég skil það vel að menn hafi hér áhyggjur af fjármunum en ég tel að málið snúist líka um forgangsröðun og hvernig við verjum peningunum. Ég tel að með því að verja þeim til þess að greiða listamönnum beint fyrir vinnu sína, í verkefnatengda vinnu með styrkjum sem veittir eru til sérstakra verkefna, fáum við mikið fyrir peninginn. Ég leyfi mér að minna á allt það lista- og menningarlíf sem staðið hefur með svo miklum blóma og við erum svo stolt af sem Íslendingar og er hluti af því sem gerir okkur að samfélagi.