136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:51]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nýtt heildarfrumvarp til laga um listamannalaun sem á að leysa af hólmi gildandi lög frá 1991, tæplega 20 ára gömul lög. En eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu byggir þetta kerfi okkar um listamannalaun að grunni til á lögum frá 1967 þannig að þetta stuðningskerfi við listamenn í landinu er búið að vera hér á fimmta áratug.

Það er réttilega bent á það í athugasemdum að á þeim 20 árum tæpum sem liðin eru frá því að lög um listamannalaun voru sett árið 1991 hefur margt breyst, íslenskt samfélag ekki síst og listaumhverfið sömuleiðis. Okkur hefur fjölgað talsvert og það þýðir að listamönnum hefur fjölgað hlutfallslega líka, en jafnframt höfum við á þessu tímabili komið upp Listaháskóla haustið 1999. Þá varð umtalsverð fjölgun listamanna hér, það fjölgaði í þeim hópi fólks sem leitaði sér menntunar á þessu sviði af því að það varð auðveldara að afla sér menntunar en áður hafði verið. Það þýðir að ásókn í listamannalaun hefur aukist og mánaðarlaununum sem verið hafa til úthlutunar hefur ekki fjölgað á þessu tíambili. Þeim var fjölgað með lögunum frá 1991 yfir nokkurra ára tímabil og hefur ekki fjölgað frá 1997. Á það allt saman er réttilega bent í greinargerðinni.

Þar er sömuleiðis réttilega bent á að það er mjög misjafnt hvaða möguleika listamenn hafa til að afla sér tekna og á meðan listamenn eru að hasla sér völl og skapa sér nafn skiptir máli að þeir séu studdir. Ég hygg að við séum öll sammála um það, sama hvar við stöndum í flokki, að það er nauðsynlegt og mikilvægt að styðja við listamenn sem eru að feta sig áfram á listabrautinni til þess að gera þeim kleift að skapa sér nafn og geta sinnt listsköpun sinni þannig að þeir þurfi ekki að hafa allt of miklar áhyggjur af framfærslu sinni. Tekin eru áhugaverð dæmi í greinargerðinni sem hæstv. menntamálaráðherra nefndi líka í sinni ræðu áðan um rithöfund sem er að hasla sér völl og gefa út bók. En ef hann hefur árangur sem erfiði og verður vinsæll rithöfundur þarf hann ekki lengur á þessum stuðningi að halda.

Listgreinar eru líka mismunandi og þær eru mismunandi fallnar til þess að skapa tekjur. Þær eru mismunandi fallnar til þess að afla listamanninum nokkurra raunverulegra tekna sem hægt er að lifa sæmilega af, jafnvel þótt hann verði þekktur. Þess vegna er lagt hér til, virðulegi forseti, að mánaðarlaununum sem úthlutað verður, verði fjölgað yfir þriggja ára tímabil úr 1.200 og í 1.600. Það er auðvitað góðra gjalda vert og ég hygg að í raun séum við öll sammála þeirri fjölgun.

Þær athugasemdir sem við sjálfstæðismenn höfum gert í umræðum um þetta frumvarp og sem glöggt koma fram í nefndaráliti 2. minni hluta eru þær að við höfum áhyggur af því í því árferði sem við búum nú við að þarna sé verið að stækka fjárlagagatið. Hér voru miklar og heitar umræður í morgun og talað um að það væri yfir 150 milljarða gat á fjárlögum þessa árs í boði Sjálfstæðisflokksins og sagt að til þess að hægt væri að stoppa í það gat og minnka það þyrfti bæði að lækka laun og hækka skatta. Það eru þau úrræði sem t.d. hæstv. menntamálaráðherra fór ítarlega yfir og hún á þakkir skildar fyrir að vera svo hreinskilin á kosningafundinum í gær.

Þá vakna spurningar um hvort þessi tímasetning sé sú rétta því að þótt það séu kannski ekki háar fjárhæðir sem um er að ræða — það kemur fram í kostnaðarmatinu að fjölgunin þýði 107 millj. kr. útgjöld ríkisins á ári miðað við núgildandi mánaðarlaun sem eiga að verða óbreytt, 266.737 kr., en síðan er reiknað með að þessi fjárhæð verði endurskoðuð árlega miðað við verðlagsþróun. Þetta eru rétt yfir 100 milljónir og einhvern veginn hefði maður haldið fyrir fram að þegar talað er um þann alvarlega fjárlagavanda sem hér er vissulega til staðar væru útgjaldaverkefni af þessu tagi ekki nákvæmlega þau brýnustu, hversu góð sem þau eru. Við getum tekið fjöldamörg verkefni og sagt að þau séu góð og þörf þó að þau kosti peninga en þegar við erum með fjárlagagat til að stoppa í er þetta ekki alveg það sem við þurfum mest á að halda um þessar mundir. Það er það sem málflutningur okkar hjá Sjálfstæðisflokknum beinist að. Við erum ekki á móti fjölgun listamannalauna, við teljum bara að aðstæður í samfélaginu séu núna með þeim hætti að hætt sé við því að í fjárlagavinnunni, hvort sem það verður á þessu ári, á næsta ári eða á þarnæsta ári, verði sagt um þetta mál: Því miður, við getum ekki staðið við þau loforð sem við höfum gefið um fjölgun. Þá teljum við betur heima setið en af stað farið því að það er ekki fallegt að byggja upp væntingar hjá listamönnum um að það muni nú fjölga í þessum hópi ef það fyrsta sem gert verður eftir að lögin eru gengin í gildi og þegar gera á fjárlög næstu ára er að það verði skorið niður. Það er fyrst og fremst það sem ábendingar okkar snúa að því að eins og fram kemur skýrt og skilmerkilega í nefndaráliti 2. minni hlutans leggjum við til að ekki verði hróflað við núgildandi lögum um listamannalaun. Það er ekki eins og við séum að tala um að að fella niður listamannalaun, alls ekki, við viljum viðhalda því kerfi sem hér er og um leið og aðstæður breytast og landið fer að rísa, sem það hlýtur að fara að gera, og tekjur ríkissjóðs aukast, verði þetta eitt af því sem þá verði skoðað.

Það eru örfá atriði, herra forseti, sem ég hnaut aðeins um þegar ég fór yfir þetta frumvarp og sem væri fróðlegt að fá svör við frá hv. formanni menntamálanefndar, hygg ég að hafi verið, sem var með málið í skoðun.

Ég velti því t.d. fyrir mér af hverju menn hafa ekki verið djarfari í því að setja t.d. þak á það hve oft hver listamaður getur fengið listamannalaun. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að stjórn listamannalauna hafi ítrekað hreyft þeirri hugmynd en hún hafi fallið í grýttan jarðveg hjá sumum heildarsamtökum listamanna og þess vegna sé ekki talið rétt að gera tillögu um að setja slíkt ákvæði inn í lögin þó að þau hafi sætt ákveðinni heildarendurskoðun. Ég velti því fyrir mér af hverju menn þora ekki að stíga þetta skref jafnvel þó að einhver heildarsamtök listamanna séu á móti því. Við hljótum í prinsippinu öll að vera sammála um það að listamannalaun, eins og mér fannst líka koma glöggt fram í máli hæstv. menntamálaráðherra, eru til að hjálpa listamönnum af stað á listabrautinni, hjálpa þeim til að hasla sér völl. Þeir eru óþekktir og það er verið að hjálpa þeim að koma sér áfram. Ég velti því fyrir mér hvað geri það að verkum að menn eru feimnir við að setja á þetta þak því að það mundi hugsanlega geta aukið nýliðunina í þessum hópi. Það kemur einmitt fram í greinargerðinni að það er mikilvægt að ákveðin og eðlileg nýliðun verði í hópi þeirra sem fá listamannalaun.

Ég hnýt líka um eitt, herra forseti, í skýringum með 4. gr. frumvarpsins. Í 4. gr. er talað um starfslaunin, að þau eigi að vera 266.733 kr., og síðan er talað um að þeir sem njóti starfslauna í sex mánuði eða lengur skuli ekki gegna fullu starfi og ýmsar fleiri ábendingar eru þar og í greinargerðinni, skýringunum, er skýrt tekið fram að gert sé ráð fyrir því að þessar greiðslur séu svokallaðar verktakagreiðslur, ekki launagreiðslur, sem þýðir að listamaðurinn þarf sjálfur að standa straum af greiðslum tryggingagjalds og hvað þetta allt saman heitir sem m.a. skapar honum rétt til atvinnuleysisbóta og annað slíkt. Í skýringunum er síðan bent á það, og sérstaklega tekið fram, nánast eins og menn séu að hreykja sér af því, að starfslaun séu veitt til listamannsins sjálfs og skuli þau greidd á kennitölu viðkomandi. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að listamenn stofni einkahlutafélög um starfsemi sína og hafa ýmsir farið þess á leit að fá starfslaunin greidd á kennitölu einkahlutafélagsins. Slíkum beiðnum hefur verið hafnað til þessa á þeirri forsendu að verið sé að veita sjálfum listamanninum starfslaun en ekki fyrirtæki. Þarna finnst mér menn talsvert þröngsýnir, að þeir skuli ekki koma til móts við listamenn sem hafa séð ákveðið hagræði í því að halda tekjum sínum vegna listsköpunar sinnar inni í einkahlutafélagi, það virkar nefnilega þannig í einkahlutafélagi að menn verða svo að borga sér laun. Það kemur fram í greinargerðinni að þeir sem starfa sjálfstætt með þessum hætti þurfa meira að segja að reikna sér mánaðarlaun upp á 414 þús. kr. sem mér finnst að vísu alveg ótrúlega há fjárhæð, ég hefði haldið að hæstv. fjármálaráðherra ætti að byrja á því í kreppunni sem nú er að endurskoða þau mörk fyrir listamenn — en þetta var útúrdúr. En ég skora á, af því að ég tel að menntamálaráðuneytið geti breytt þessari framkvæmd hvernig sem lagatextinn er, hæstv. menntamálaráðherra að skoða þetta. Mér finnst þessi afstaða, að neita listamönnum sem fá þessi listamannalaun um að fá greiðsluna, sem er verktakagreiðsla, inn í einkahlutafélag sitt — þetta eru engin skattsvik, það er bara ákveðið hagræði fyrir listamanninn og við hljótum á þessum tímum að vilja koma til móts við listamenn og gera þeim lífið auðveldara, nógu erfitt er það samt. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að skoða þetta því að ég tel að þetta sé bara spurning um framkvæmd en ekki um lagatextann sjálfan.

Það þriðja sem ég hnaut um, virðulegi forseti, og gaman væri að fá skýringar á, er að í lögin um listamannalaun frá 1991 var sett ákvæði, í 2. mgr. 9. gr., um listasjóð þar sem tekið er fram að listasjóður veitti einnig sérstök framlög til listamanna sem notið hefðu listamannalauna í nokkur ár, fyrir 31. desember 1991, og höfðu þá náð 60 ára aldri. Gott mál. Árið 1991 var sem sagt ákveðið að þeir sem þá voru orðnir sextugir skyldu geta haldið áfram að fá listamannalaun. Þetta ákvæði er núna sett inn í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu algerlega óbreytt sem þýðir að þeir einstaklingar sem í hlut eiga eru núna næstum því áttræðir. Með fullri virðingu fyrir fullorðnu fólki í listsköpun þá velti ég því fyrir mér hvort brýnast sé að halda þeim hópi inni í þessu stuðningskerfi. Eins og þetta hljómar núna þá eru þeir — þetta er algerlega óbreytt, í III. ákvæði til bráðabirgða segir, með leyfi forseta:

„Listamenn sem notið höfðu listamannalauna í nokkur ár fyrir 31. desember 1991 og höfðu þá náð 60 ára aldri skulu njóta sérstakra framlaga samkvæmt ákvörðun stjórnar listamannalauna.“

Í greinargerðinni kemur fram að um 12 listamenn hafi verið að ræða á þessu ári. Á þeim tímum þegar við erum að forgangsraða og þurfum að nota fjármuni okkar til hins ýtrasta held ég að að skaðlausu hefði mátt fella þetta ákvæði til bráðabirgða út, þannig að þessir 12 styrkir sem fara til einstaklinga í kringum áttrætt, með fullri virðingu fyrir þeim, færu þá til yngri listamanna. Við skulum ekki gleyma því að þegar Íslendingar, listamenn sem aðrir, verða 67 ára og eldri komast þeir inn í stuðningskerfi almannatrygginga og fá þar bætur sem vissulega eru ekki nein ofrausn en það er þó opinber stuðningur. Eigum við ekki frekar að nota þessa peninga í þágu þeirra sem eru að byrja listamannsferilinn heldur en þeirra sem eru að eldast? Ég varpa þeirri spurningu fram og það væri líka fróðlegt að fá skýringu frá hv. formanni menntamálanefndar á því af hverju þetta ákvæði er óbreytt inni og ekkert gert við það í meðferð nefndarinnar.