136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður kemst ósköp einfaldlega ekki undan þeim orðum sínum, meðan hún tekur þau ekki aftur, að hennar vilji stendur til þess að af þeim áttræðu listamönnum sem þarna er um að ræða verði teknir þeir litlu peningar sem þeir fá með þessum hætti og voru í lögunum frá 1991. Hún vísar þeim á annað stuðningskerfi ríkisins sem eru sem sé strípaðar tryggingabætur en um það er auðvitað að ræða. Þó að ég þekki ekki aðstæður hvers og eins sem hér kemur við sögu þá hygg ég að meiri hluti þeirra sé þannig staddur, eins og margt fólk á þessum aldri, að lífeyrisréttindi þeirra eru afar takmörkuð. Undan þessu kemst hv. þingmaður ósköp einfaldlega ekki. Það er ekki meginmálið hér þó að það sé nokkuð kaldlynt af hv. þingmanni að koma með þessa athugasemd í þessari umræðu.

En það sem hv. þingmaður sagði hins vegar er að væntanleg andstaða hennar — a.m.k. efasemdir hennar, kannski situr hún hjá, kannski greiðir hún atkvæði með þessu að lokum, hún virðist vera hlynnt listamannalaunum í heild sinni — byggist á því að aðstæðurnar nú séu svo slæmar að ekkert megi hreyfa. Í raun og veru byggjast þær á því að það sé sérstaklega verið að gefa listamönnum einhverja peninga og taka þá frá öðrum. Meðan hæstv. menntamálaráðherra hefur upplýst að fyrstu tvö árin fjármagnast þetta af sjálfu sér nánast, með því að það eru peningar inni í starfslaunasjóðunum sem hægt er að nota í þetta fyrstu tvö árin og það er ekki fyrr en árið 2012 sem þarf að gera ráð fyrir þessu við fjárlagagerð ársins. Ég bið því hv. þingmann að lýsa því fyrir mér hvaða aðstæður nákvæmlega eru það núna sem valda þessu, ætlast hún til þess að þessar 80–90 millj. kr. í starfslaunasjóðunum séu þá teknar út úr starfslaunasjóðunum og settar eitthvað annað fyrst hún stendur á móti þessum breytingum? Enn spyr ég: Er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins einhuga í því að standa á móti fjölgun þeirra sem njóta listamannalauna, hinni fyrstu í 13 ár?