136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:15]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um frumvarp til listamannalauna. Með frumvarpinu er lagt til að fjölga mánaðarlaunum sem úthlutað er sem starfslaunum úr 1.200 í 1.600 eða um 400. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Einar K. Guðfinnsson skrifuðu undir nefndarálit minni hluta og þar kemur fram að helstu ákvæði sem hafa áhrif á útgjöld ríkisins eru fjölgun mánaðarlauna um 400. Miðað við að fyrirhuguð mánaðarlaun verði 266.737 kr. þýðir það 107 milljón króna aukningu á útgjöldum ríkisins. Einnig er talið að útgjöld ríkisins gætu aukist vegna aukinna umsýslu vegna fjölgunar mánaðarlauna og vinnu við stefnumörkun.

Það er ekki gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 eins og fram hefur komið og ekki er heldur gert ráð fyrir þessum áætluðu útgjöldum á næstu fjórum árum. Því þarf eins og segir hér, virðulegur forseti, vegna mikils halla ríkissjóðs að fjármagna útgjöldin með lántökum. Annar minni hluti fellst ekki á að það sé raunhæf leið til atvinnu- og verðmætasköpunar að auka útgjöld ríkisins með þeim hætti. Einnig leggur annar minni hluti til að ekki verði hróflað við núgildandi lögum um listamannalaun.

Er nema von, er nokkuð óeðlilegt að við sjálfstæðismenn skulum spyrja þeirrar spurningar, nú þegar árar eins og gerir og eftir efnahagshrunið, hvort ástæða sé til að fara þessa leið og fjölga listamannalaunum, þ.e. þeim sem geta þegið listamannalaun, við þessar aðstæður? Það hefur komið fram að við sjálfstæðismenn höfum ekkert á móti listamannalaunum, síður en svo, en við höfum áhyggjur af því að það stefni í lántökur vegna þessa máls. Maður spyr hvort það hafi verið skoðað og hvort ekki hefði verið möguleiki, t.d. vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu, að fjölga listamönnum en halda okkur innan fjárheimilda. Ég fagna því að verið sé að bæta hönnuðum, sviðslistafólki og tónlistarfólki inn á þennan lista og ég held að það sé algjörlega tímabært að gera það en spyr hvort það hefði mátt, án þess að auka útgjöldin á þessum lið, taka samt sem áður inn þessar nýju listgreinar. Við yfirlestur á frumvarpinu er annað sem vekur athygli mína, það er í 3. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Stjórnin gerir tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur við úthlutun listamannalauna til þriggja ára í senn og hefur eftirlit með að skilyrðum um starfslaun sé fylgt. Stjórninni er heimilt að færa umsóknir á milli sjóða.“

Í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um með hvaða hætti styrkirnir eigi að vera. Þar er greint frá því að listamannalaun árið 2010–2011 verði, eins og segir í bráðabirgðaákvæðinu, með leyfi forseta:

„Starfslaun og styrkir til hönnuða árið 2010 skulu miðast við 20 mánaðarlaun og árið 2011 við 35 mánaðarlaun. Starfslaun og styrkir myndlistarmanna árið 2010 skulu miðast við 360 mánaðarlaun og árið 2011 við 400 mánaðarlaun. Starfslaun og styrkir rithöfunda árið 2010 skulu miðast við 505 mánaðarlaun og árið 2011 við 530 mánaðarlaun. Starfslaun og styrkir sviðslistafólks árið 2010 skulu miðast við 160 mánaðarlaun og árið 2011 við 175 mánaðarlaun. Starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda árið 2010 skulu miðast við 150 mánaðarlaun og árið 2011 við 165 mánaðarlaun. Starfslaun og styrkir tónskálda árið 2010 skulu miðast við 130 mánaðarlaun og árið 2011 við 160 mánaðarlaun.“

Hér finnst mér skjóta nokkuð skökku við að talað er um að stjórnin eigi að gera tillögu til ráðherra um stefnur og áherslur og þarna finnst mér þetta of fast neglt niður. Miðað við þetta getur stjórnin í raun ekki gert neinar breytingar á því hvernig hún vill haga þessum málum og miðað við það efnahagsástand sem nú er og eins og fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra áðan, að það sjást auknar útflutningstekjur vegna menningar þá spyr maður sig hvort það ekki hefði einmitt átt að breyta þessu með þeim hætti að stjórnin hefði það vald að geta ákveðið að eitt árið væri kannski þróunin í útflutningi menningar með þeim hætti að það ætti t.d. að leggja áherslu á rithöfunda. Við höfum séð að íslenskir rithöfundar hafa verið að hasla sér völl á undanförnum árum og gefið út mikið af íslenskum bókum þýddum á erlend tungumál. Síðan gæti röðin komið að tónlistarflytjendum eða hönnuðum en það er einmitt það sem við höfum séð að undanförnu að íslensk hönnun, og ég tala nú ekki um íslenska fatahönnun og að fatahönnuðir hafa verið að gera garðinn frægan og gera það mjög gott víða erlendis, vinna til verðlauna á mörgum sviðum. Það hefur sýnt sig að erlendir ferðamenn sem koma hingað sækjast mjög í íslenska fatahönnun. Þess vegna segi ég að það væri kannski hægt að leggja mesta áherslu á að styðja t.d. við þá listgrein eitt árið. Þarna hefði mér fundist að hefði mátt skoða betur hvort ekki hefði verið hægt að fara einhverja svona leið í því að styðja við bakið á menningunni.

Síðan má spyrja hversu langt á að ganga í því á næstu árum að fjölga listamannalaunum. Það hefur komið fram að með tilkomu Listaháskólans hefur ásókn í listamannalaun aukist verulega. Skal þá engan undra því í Listaháskólanum er mikill metnaður, mikil ásókn og þaðan útskrifast mjög öflugir nemendur á menningarsviðinu. Hlutverk Listaháskólans í þessu öllu saman er að efla framsækna hugsun í listum og menningu og örva hvers konar nýsköpun og þróun á öllum sviðum. Skólinn veitir listmenntun á háskólastigi og miðlar til samfélagsins þekkingu og fagmennsku í listum. Hann starfar í alþjóðlegu umhverfi og miðar við þá skóla í nágrannalöndunum sem þykja skara fram úr og þar ríkir mikill metnaður.

Við verðum sjálfsagt næstu tvö til þrjú árin að koma okkur upp úr því efnahagsástandi sem nú ríkir og það má vissulega spyrja hvort þetta sé byrjunin á frekari fjölgun á listamannalaunum. Hins vegar hef ég ekkert á móti því að við séum með listamannalaun og ég er mikill aðdáandi menningar á öllum sviðum og ég hef séð það í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, þar sem gerður var menningarsamningur milli sveitarfélagsins og ráðuneytisins, eða menntamálaráðuneytisins og samgönguráðuneytisins, að síðan sá samningur var gerður, sem ég held að hafi verið einn síðasti samningurinn sem var gerður á þessu sviði fyrir einu og hálfu eða tveimur árum, að menning og menningartengd ferðaþjónusta hefur blómstrað í kjördæminu og ég tel að það sé mjög af hinu góða. Auðvitað viljum við öll styðja við og styrkja blómlegt menningarlíf og þess vegna er hugmyndin á bak við þessa samninga gríðarlega góð og jákvæð fyrir menningarlífið. Ég get vissulega tekið undir það sem hæstv. menntamálaráðherra sagði áðan í ræðu sinni að það er kannski einmitt við þær aðstæður sem eru í samfélaginu nú að það þarf að ýta undir menningarstarfsemi á öllum sviðum.

Ég tek undir það með þeim félögum mínum sem talað hafa á undan að við höfum ekkert á móti því að hér séu listamannalaun og jafnvel að þeim sé fjölgað að einhverju leyti en við höfum virkilegar áhyggjur af þeirri lántöku sem hér um ræðir. Það er ekki heppilegt í því árferði sem nú er, þegar fjárlagahallinn er jafnmikill og raun ber vitni þá er ekki viðbætandi að þurfa að taka lán til þess að bæta hag þessara hópa.