136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:02]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka til máls um þessar breytingar á lögunum um listamannalaun. Á sínum tíma þegar ég var menntamálaráðherra var þessum lögum breytt, árið 1996. Hér í umræðunni hafa komið fram fullyrðingar um að síðan hafi ekkert gerst á þessu sviði og látið hefur verið í veðri vaka að það hafi verið sleifarlag af hálfu okkar sjálfstæðismanna að ekki hafi neitt gerst varðandi listamannalaun eða menningarmál.

Ég mótmæli þessu harðlega. Það er mjög ósanngjarnt af þeim ræðumönnum sem hér koma og leggja þann mælikvarða á framlag okkar í menntamálaráðuneytinu, bæði í minni tíð og þeirra sem síðan hafa verið af hálfu Sjálfstæðisflokksins menntamálaráðherrar, að láta eins og það hafi verið aðgerðaleysi í menningarmálum. Það stenst enga gagnrýni og er mjög ósanngjarnt í garð þeirra sem hafa sinnt menningarmálum í menntamálaráðuneytinu á þessum árum og ber líka vott um að þeir sem þannig tala hafi í rauninni ekki fylgst með því hvað hefur verið að gerast og þeirri miklu breytingu, þeirri gífurlegu miklu breytingu sem orðið hefur í þátttöku opinberra aðila, menntamálaráðuneytisins og annarra opinberra aðila til þess að efla menningarlíf í landinu.

Hv. síðasti ræðumaður, Björk Guðjónsdóttir, minntist á það m.a. að hún hafi kynnst því sem sveitarstjórnarmaður og þingmaður í Suðurkjördæmi hve mikla þýðingu það hefði haft fyrir það kjördæmi að gerður var menningarsamningur við það milli ríkisins og sveitarfélaganna og hve miklu það hefur breytt fyrir menningarstarf í hennar kjördæmi.

Ég vil rifja það upp, virðulegi forseti, að á Austfjörðum voru menn að velta fyrir sér átaki til að efla menningarlíf og það var gróska í menningarlífi á mörgum stöðum á Austfjörðum. Og í minni tíð sem menntamálaráðherra hét ég Austfirðingum því að staðið yrði með samningsgerð að stuðningi af hálfu menntamálaráðuneytisins við Austfirði ef menn þar sameinuðust í öllu kjördæminu um ákveðna stefnu af sinni hálfu og forgangsröðun að því að menningarstarf varðaði. Það er skemmst frá því að segja, virðulegi forseti, að þetta gekk eftir. Austfirðingar tóku höndum saman og skipulögðu og mótuðu sameiginlega stefnu í menningarmálum og á grundvelli þeirrar stefnu og þeirrar samstöðu var síðan fyrsti menningarsamningurinn gerður.

Þetta tel ég að hafi verið mikilvægt skref og það hefur síðan breiðst út um landið allt. Og ef ég skil það rétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Bjarkar Guðjónsdóttur var Suðurkjördæmi síðasta kjördæmið til að gera slíkan samning við ríkisvaldið. Þar með hafa slíkir samningar verið gerðir við alla landsfjórðunga af hálfu menntamálaráðuneytisins.

Síðan gerðist það einnig, virðulegi forseti, að ákveðið var að koma á laggirnar sérstökum sjóði sem tengist Listahátíð í Reykjavík. Listahátíð í Reykjavík hefur einnig látið að sér kveða utan höfuðborgarsvæðisins og veittir hafa verið styrkir sem eiga að stuðla að því að efla menningarstarf um landið allt undir þessum merkjum.

Menn geta síðan deilt um hvort það hefði átt að forgangsraða frekar í þessa þágu eða að fjölga listamannalaunum. (Gripið fram í.) Á þessum tíma var eins og ávallt er takmarkað fjármagn og það varð að taka ákvarðanir og forgangsraða og móta stefnu sem studdist við öruggar fjárveitingar, því að engum hefði dottið í hug að gera menningarsamninga af hálfu ríkissjóðs á þann veg að tekið væri fé að láni til að standa straum af kostnaði við menningarsamningana.

Það er einmitt það sem við sjálfstæðismenn gagnrýnum helst varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir, að fjárveitingin er ekki tryggð, eins og segir í umsögn fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Vegna mikils halla á ríkissjóði mun því þurfa að fjármagna útgjöldin með lántökum.“

Það hefði aldrei nokkrum manni dottið í hug að koma inn á hið háa Alþingi með menningarsamninga eða önnur slík áform og leggja það fyrir að tekin yrðu lán af hálfu ríkisins til að hrinda þeim áformum í framkvæmd. Það er sá þáttur í þessari stefnumörkun sem við erum að gagnrýna, því að það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, virðulegi forseti, að störfum og mótun þessarar stefnu lauk áður en núverandi ríkisstjórn tók við völdum 1. febrúar síðastliðinn. Það segir hér, með leyfi forseta:

„Ítarleg umræða fór fram á fundi 7. janúar sl. sem menntamálaráðuneyti hélt með stjórn listamannalauna og fulltrúum frá stjórn Bandalags íslenskra listamanna (BÍL), þ.e. fulltrúum frá Rithöfundasambandi Íslands, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Tónskáldafélagi Íslands, Félagi tónskálda og textahöfunda og Félagi íslenskra dansara fyrir hönd sviðslistafélaga um endurskoðun laganna og skiptingu mánaðarlaunanna. Á þeim fundi náðist samstaða um að efla starfslaunasjóðina sem allra fyrst, og því samþykktu félögin að hverfa frá kröfum um annars konar skiptingu á starfslaunasjóðunum á þessu stigi, en hvöttu til þess að stefnt yrði að heildarendurskoðun á lögum um listamannalaun hið allra fyrsta. Félögin féllust einnig á tillögu ráðuneytisins um að stofnaður verði sérstakur launasjóður hönnuða.“

Í kjölfar þessa fundar fóru fram frekari umræður um málið innan stjórnar Bandalags íslenskra listamanna og síðan var samþykkt á fundi þeirra 12. janúar ályktun þar sem segir:

„Stjórn BÍL lýsir yfir ánægju sinni með framkomna tillögu um listamannalaun og styður hana fyrir sitt leyti. Jafnframt telur stjórnin afar jákvætt að fá að fjalla um frumvarpið á þessu stigi málsins. Stjórnin álítur að rétt sé að skilja á milli tónlistarflytjenda og sviðslistafólks, sem hingað til hafa verið saman í listasjóði, með því að stofnaðir verði tveir aðgreindir sjóðir.“

Þetta er gert í tíð menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Það er því fráleitt að koma hér og segja að sjálfstæðismenn hafi lagt stein í götu þess að þetta næði fram að ganga. Þvert á móti var þessi stefnumörkun til undir handarjaðri menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. En það sem við finnum að er það að fjármagn sé ekki tryggt heldur þurfi að taka fé að láni til standa við þessi fyrirheit eins og frumvarpið er hér kynnt.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það kemur mér mjög á óvart að hæstv. menntamálaráðherra sem leggur þetta frumvarp fram skuli gera það í ljósi þeirra ummæla sem nú eru á allra vitorði og eftir henni voru höfð á fundi í næsta nágrenni í gær, á kosningafundi þar sem hæstv. ráðherra sagði að nú væri brýnast að lækka laun og hækka skatta. Hæstv. ráðherra boðar þá stefnu að nú sé brýnast að lækka laun og hækka skatta og við erum að fjalla um frumvarp frá þessum sama ráðherra sem gengur út á það að brúa bil vegna þess frumvarps með því að taka lán. Hvaða jafnvægi og hvaða samræmi er í yfirlýsingum stjórnmálamanna sem þannig koma fram? Sem segja einn daginn að það sé nauðsynlegt að lækka laun og hækka skatta og standa svo hér og verja frumvarp sem gengur út á það að auka hallann á ríkissjóði og taka lán til að framkvæma það sem þeim er kappsmál að gera?

Ég tel að sjálfsögðu eðlilegt að fjölga starfslaunum listamanna en það er til lítils að gera það ef menn hafa ekki efni á því, ef það er svo að menn hafa ekki efni á því og ríkissjóður er þannig staddur að það er ekki svigrúm til þess. En síðan segir sami hæstv. ráðherra sem boðar þetta að það sé brýnast núna að lækka laun og hækka skatta.

Það er þessi þverstæða sem við erum að fjalla um og það þarf að fjalla um hana, menn þurfa að átta sig á því. Því að eins og kom líka fram í morgun á hinu háa Alþingi var vegið að okkur sjálfstæðismönnum og við sakaðir sérstaklega um, ja, ég veit ekki hvað, að það sé okkur að kenna að það sé 150 milljarða kr. halli á ríkissjóði. Þeir sem þannig tala koma hér síðdegis og flytja frumvarp um að auka þennan halla — í góðu skyni, um það er ekki deilt — en segja svo í hinu orðinu að það sé brýnast að lækka laun og hækka skatta.

Síðan er talað um það hér að það eigi að skapa fólki störf við núverandi aðstæður og þar á meðal listafólki sem er nauðsynlegt og sjálfsagt. En ég spyr: Hvers vegna hefur hæstv. menntamálaráðherra lýst því yfir að hún ætli að taka að sér kennslu? Væri ekki nær t.d. að bjóða listamönnum og fólki sem er menntað á þessu sviði að fara í kennslustörf ef það vantar fólk til að sinna kennslustörfum, að bjóða fólki að koma að því líka og afla sér tekna með þeim hætti? En ekki að hæstv. menntamálaráðherra lýsi því yfir að hún ætli sem þingmaður og hugsanlega sem ráðherra að taka að sér kennslu. Það væri fróðlegt að heyra hvað hv. formaður menntamálanefndar segir um slíka hluti. Hvort hann telji að það sé eðlileg forgangsröð þegar við erum að fjalla um mál af þessu tagi og hæstv. ráðherra heldur því fram að það eigi að lækka laun og hækka skatta en lýsir því jafnframt yfir að hún ætli í hjáverkum að taka að sér að sinna kennslustörfum.

Mér finnst þetta allt með miklum ólíkindum. Það er þessi blær og þetta yfirbragð á þessu frumvarpi sem við sjáum ástæðu til að gagnrýna. Við erum ekki á móti því að leggja opinbert fé til menningarstarfs. Það hefur komið fram, það liggur fyrir og það er skýrt og við höfum beitt okkur fyrir því á undanförnum árum.

Mér hefði aldrei dottið í hug, hæstv. forseti, og ég hefði raunar aldrei búist við því að komist gæti í gegnum ríkisstjórn frumvarp sem flutt væri með þeim formerkjum að til þess að framkvæma það þyrfti ríkissjóður að taka lán. Og það hefðu samráðherrar mínir í þeim ríkisstjórnum sem ég hef setið í á undanförnum 12 árum örugglega sagt og spornað við fæti ef það hefði komið fram í umsögn fjármálaráðuneytisins sem hér stendur, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Vegna mikils halla á ríkissjóði mun því þurfa að fjármagna útgjöldin með lántökum.“

Ég hefði í sjálfu sér aldrei leyft mér að fara með slíkt frumvarp inn í ríkisstjórnina — þetta er með eindæmum — og hef ég þó verið í ríkisstjórnum þar sem hefur verið verulegur afgangur af ríkissjóði. Ég hefði örugglega þurft að rökstyðja það mjög vel ef ég hefði ætlað að forgangsraða með þessum hætti miðað við þau miklu framlög sem hafa farið til menningarmála á undanförnum árum.

Ég ætla ekki að sitja undir því í þessum sal að við sjálfstæðismenn höfum staðið illa að stuðningi við menningarmál á undanförnum árum. Þvert á móti hefur menningarstarf blómstrað vegna ýmissa aðgerða sem við höfum gripið til. Í þessu frumvarpi og greinargerð þess er m.a. vísað til hinna miklu áhrifa sem Listaháskóli Íslands hefur haft og hvað hann hefur lagt mikið af mörkum til þess að efla og styrkja grósku í íslensku í menningarlífi. Og það er einmitt með vísan til starfa hans og hins mikla áhuga sem er nú í framhaldsskólum á námi í hönnun og öðru slíku sem lagt er til að hér verði stofnaður sérstakur sjóður, starfslaun til þess að styrkja hönnuði. Þetta ber allt vott um mikla grósku og vaxandi áhuga á því að stunda menningarlíf og þessi gróska og þessi áhugi er m.a. tilkominn vegna þess hve ötullega við höfum stuðlað að því á undanförnum árum sem höfum borið ábyrgð á menntamálaráðuneytinu í umboði þings og okkar flokks og þetta frumvarp er ávöxtur af því. En það er náttúrlega frumskilyrði að menn geri ekki tillögur ef þeir hafa ekki efni á að framkvæma þær.