136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:24]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um listamannalaun. Það er flutt af hæstv. menntamálaráðherra og það kemur í ljós í frumvarpinu að ekki eru fjármunir til í ríkissjóði til þess að standa straum af þessu. En þessi sami hæstv. ráðherra gengur síðan fram, og er það staðfest af hæstv. fjármálaráðherra, og flytur okkur þá stefnu að það beri að lækka laun og hækka skatta. Það var það sem hæstv. fjármálaráðherra var að rökstyðja að væri skynsamleg stefna. Og síðan spyr hann mig hvort ég hafi einhverja aðra stefnu. Ég hef ekki þá stefnu að það eigi að … (Fjmrh.: Jú.) Virðulegur forseti, fæ ég að tala hér?

Hæstv. fjármálaráðherra hlustar ekki á ræðuna þegar ég flyt hana, hann veit ekki um hvað ræðan snerist. Hann kemur hingað og fer síðan kalla þannig fram í að ég fæ ekki tækifæri til þess að svara honum þegar ég reyni að útskýra að ég hafi ekki þá stefnu að skynsamlegast sé nú að hækka skatta og lækka laun. Það er stefna menntamálaráðherra og kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að þetta er líka stefna hans sem fjármálaráðherra. Hann kom með neðanmálsskýringu á því sem hæstv. menntamálaráðherra sagði í gær til þess að setja þau orð hennar um að nú væri brýnast að lækka laun og hækka skatta í þann búning sem hann telur að þau eigi að vera. En það kom ekki fram á þessum fundi sem hæstv. menntamálaráðherra var á í gær. Aðeins hefur komið fram það markmið sem hún lýsti þar og hefur verið haft eftir henni í fréttum í allan dag og menn velta fyrir sér hvað þýðir. Meðal annars hefur komið fram að talsmenn BHM hafa áhyggjur af því hvað þetta þýðir, um hvað er verið að tala. Þeir hafa sagt, ef ég heyrði rétt í fréttum, að þeir búist við því að það verði atgervisflótti í þeirra röðum vegna þessara ummæla því að það stangist alveg á við þau markmið að halda uppi opinberri þjónustu að ætla bæði að hækka skatta og lækka laun hjá opinberum starfsmönnum.