136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá miklu umræðu sem farið hefur fram um sérstaklega efnislitla breytingartillögu sem ég flutti við 3. umr. sem var aðeins tæknilegs eðlis og lagfæring á tölum. En það er augljóst mál að hún hefur vakið upp miklar tilfinningar og skoðanir sérstaklega hjá nokkrum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Að vísu hefði verið betra ef a.m.k. nokkrir þeirra hv. þingmanna hefðu verið viðstaddir 2. umr. og hlýtt á leiðréttingar á málflutningi sumra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa verið endurteknar hér trekk í trekk. Ég verð því, virðulegi forseti, að eyða örfáum mínútum í það að endurtaka þær leiðréttingar.

Mikið er úr því gert að taka eigi gífurleg lán til þess að geta staðið undir þeim lagabreytingum sem hér eru boðaðar. Og hver skyldi nú þessi gífurlega upphæð vera sem virðist vera að setja ríkissjóð algerlega á hausinn að því er mér virðist, ekki bara í dag heldur á morgun og jafnvel í gær? Jú, það eru 17 milljónir sem þarf að brúa árið 2012. Það er nú allt og sumt sem felst í þessu frumvarpi.

Ég fer að halda að sumir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins óttist það að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda fyrir 2012 og það verði allt áfram í kalda koli. Ég held hins vegar að afar litlar líkur séu á því að Sjálfstæðisflokkurinn komist í ríkisstjórn fyrir 2012 og ég geri mér þess vegna mjög miklar vonir um að ástandið verði allt annað við gerð fjárlaga fyrir 2012 og við náum að eiga þær 17 milljónir til að bæta í þetta ágæta mál.

Það er hárrétt eins og kom fram hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni að frumvarpið er ættað frá fyrrverandi menntamálaráðherra, hv. þingmanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Þetta er meira og minna vinna undir stjórn varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna er það alveg með ólíkindum að hver hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum komi hér upp og rakki niður þá góðu vinnu.

Að vísu er þetta sett í alls konar búning og þá fyrst og fremst búning 17 milljónanna sem úr eru gerðar alls konar tölur sem ég hafði nú ekki fyrir að skrifa allar niður, en þær voru margar afar sérkennilegar. Og sviðsetningin hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni sló eiginlega öll fyrri met sem hér hafa verið slegin.

Hv. þm. Sturla Böðvarsson var samgönguráðherra til fjölda ára. Við sem sátum á þingi í þá tíð munum hinar stórkostlegu samgönguáætlanir sem ætíð var komið með á kosningaári. Það lá við að bæta ætti samgöngur um allt land á einu ári, allar það stórkostlegar að við höfum aldrei séð annað eins. En alltaf var það þannig að strax að loknum kosningum þegar kom að fjárlögum næsta árs þurfti að draga í land. Þá var ekki hægt að framkvæma. Þá var ekki til fjármagn.

Í því ljósi skilur maður auðvitað þann hugsunarhátt að hér sé bara um kosningatrix að ræða, einhver gífurleg blekking til þess að reyna að fá listamenn til að kjósa ákveðna flokka í kosningunum núna. 17 millj. kr. árið 2012. Já, þær eiga að gjörbreyta úrslitum komandi kosninga. Ég segi ekki annað en að gaman er þegar menn kasta steinum úr glerhúsi. En ég ætla ekki að fjalla meira um það. Mér finnst þessi málflutningur algerlega dæma sig sjálfan.

Það sem er fyrst og fremst mikilvægt er að komið hefur fram að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru efnislega sammála málinu. Þess vegna verður mjög fróðlegt — ég tók eftir því að hv. þm. Dögg Pálsdóttir bað hv. þm. Mörð Árnason að bíða spenntan eftir því — að sjá hvernig hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði. Ég tek undir það. Ég mun verða í því liði að bíða spenntur eftir því að sjá hvernig hv. þingmenn greiða atkvæði. Því efnislega eru hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að því er mér virðist sammála málinu, enda væri annað óeðlilegt. Frumvarpið er unnið fyrst og fremst eins og komið hefur fram í máli menntamálaráðherra af fyrrverandi menntamálaráðherra, algjörlega. Það er því hárrétt hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni að vinnan er þaðan ættuð og ekkert nema gott um það að segja.

En að gera þessar 17 millj. kr. árið 2012 að þessu óskaplega máli og láta að því liggja að það geti orðið til þess að hv. þingmenn muni jafnvel greiða atkvæði gegn frumvarpinu verður bara að koma í ljós. Ég geri þá játningu, virðulegi forseti, að ég trúi því hreinlega ekki að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Hugsanlega munu einhverjir þeirra sitja hjá með þeirri skýringu að þetta séu slík útgjöld að ekki sé verjandi að bæta svona í. Við getum þess vegna verið hér langt fram á kvöld og fram á nóttina að ræða forgangsröðun allra fjármuna og velta því fyrir okkur hvað hver króna skilar til baka í ríkissjóð á hvað löngum eða stuttum tíma.

Til að stytta umræðuna ætla ég að vekja athygli hv. þingmanna á ágætri ritsmíð eftir Ágúst Einarsson, núverandi rektor á Bifröst, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að fjármagni til menningar væri býsna vel varið því það skilaði sér ótrúlega vel og hratt til baka. Ég held því að við þurfum ekki á þessu stigi a.m.k. hafa svona miklar áhyggjur af þessum 17 millj. kr. árið 2012, að menn þurfi hugsanlega gegn betri vitund að greiða atkvæði gegn þessu ágæta frumvarpi. Ég trúi því ekki að svo verði.

Hv. þm. Dögg Pálsdóttir spurði nokkurra spurninga og er auðvitað eðlilegt að velta því aðeins fyrir sér sem kom fram hjá hv. þingmanni. Ég held þó að í undirbúningsvinnslu málsins hafi ýmsir þessir þættir verið skoðaðir og niðurstaðan hafi einfaldlega verið sú að menn vildu ekki ganga svo langt í því að ramma hlutina inn, eins og hv. þingmaður velti upp, t.d. að setja þak á það hversu oft rithöfundar og listamenn gætu fengið úthlutað úr sjóðunum og eðlilegt væri að stjórnirnar mætu það hverju sinni en löggjafinn væri ekki að ganga svo langt, stjórnlyndið sé ekki svo mikið.

Ég held að einfaldast sé að svara hinum spurningunum með sama hætti, þ.e. að það sé mat bæði þeirra sem frumvarpið lögðu fram og hv. þingmanna í menntamálanefnd að menn vildu ekki beita slíku stjórnlyndi eins og það væri ef svo langt yrði gengið, eins og hv. þingmaður spurði um eða velti upp hvort hugsanlegt gæti verið.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að við séum að ljúka umræðunni um þetta ágæta frumvarp og ég endurtek þakkir mínar til hv. þingmanna hversu mikla umræðu frumvarpið hefur fengið. Ýmis sjónarmið hafa komið fram, að vísu að hluta til að mínu mati byggð á misskilningi og væri freistandi að rifja upp ýmislegt þegar hv. þingmenn verða mjög ábyrgir í tali — sem er auðvitað eðlilegt, ég tala nú ekki um á þessum síðustu tímum — og tala um það að líklega hafi það aldrei gerst að svo óábyrgt frumvarp færi í gegnum ríkisstjórn með stuðningi hæstv. fjármálaráðherra.

Ég hef velt því upp og það kom reyndar fram í ágætri umræðu, í 2. umr. um þetta ágæta frumvarp, að mikil og stór fjárfesting í tónlistarhúsi í Reykjavík hafi ekki verið afgreidd af þinginu með ábyrgðarfullu starfi vegna þess að það var gert með 6. greinar heimild í fjárlögum. Það var gagnrýnt að vísu, eins og ég rifjaði upp við þá umræðu, af ýmsum hv. þingmönnum og m.a. talsmanni Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd á þeim tíma. Þau aðvörunarorð sem þar voru viðhöfð náðu hins vegar ekki í gegn. Það segir mér fyrst og fremst það að við þurfum að breyta fjárreiðulögunum vegna þess að það er ekki tækt að svo stórar upphæðir, alveg burt séð frá því hvaða skoðanir hv. þingmenn hafa á framkvæmdinni sem slíkri, séu afgreiddar með slíkri heimild heldur á að fara yfir slíkt með sambærilegum hætti og gert er um slíkar upphæðir við aðrar framkvæmdir í fjárlögum. Þar er því verk að vinna og ég vona að það takist sem fyrst á nýju kjörtímabili að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru í þeim efnum.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið með þeirri ósk að við munum afgreiða frumvarpið í sem allra mestri sátt og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggist í lið með stjórnarþingmönnum og greiði frumvarpinu atkvæði, en eðlilegt er að þeir minni á athugasemdir sínar um að þeir hafi gífurlegar áhyggjur af þessum 17 millj. kr. árið 2012.