136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að gera lítið úr þeim miklu samgöngubótum sem gerðar voru í tíð hv. þm. Sturlu Böðvarssonar í sæti samgönguráðherra. Þó ekki væri, því þar var býsna margt vel gert og allt gott um það að segja.

Ég velti því hins vegar fyrir mér, af því að ég áttaði mig ekki alveg á hinni stóryrtu ræðu hv. þingmanns um blekkingar sem hv. þingmaður endurtók hér aftur, hvort það gæti verið skýring á því að hv. þingmaður þekkti til slíkra vinnubragða rétt fyrir kosningar. Það var nú það eina sem ég var að velta fyrir mér. Mér finnst einhvern veginn á andsvari hv. þingmanns að eitthvað geti verið til í því. Ég áttaði mig hreinlega ekki á að þau orð mín mundu kalla fram slíka viðkvæmni, eins og fram kom í andsvari hv. þingmanns. Það hvarflaði ekki að mér að gera lítið úr þeim stórmerku ákvörðunum og þeim stórmerku og þörfu framkvæmdum öllum sem teknar voru í tíð hv. þingmanns. Þó ekki væri.

Hins vegar var mjög áberandi, eins og ég minnti aðeins á, að það var alltaf lagt mest í rétt fyrir kosningar og alltaf dregið mest úr rétt eftir kosningar. Það var það eina sem blasti við. En sem betur fer komust ýmsar framkvæmdir í gegn og eins og hv. þingmaður rifjaði upp erum við enn að sjá árangur af því og fyrir stuttu átti síðasta sprengingin sér stað í Héðinsfjarðargöngum og er það auðvitað hið besta mál.

En við skulum ekki gleyma því að Héðinsfjarðargöngin náðu líklega, ef ég man rétt, að verða kosningamál í a.m.k. tvennum ef ekki þrennum alþingiskosningum vegna þess að seinkun sem ákveðin var skömmu eftir einar alþingiskosningarnar varð býsna dýr, sem ég veit ekki betur en ríkissjóður hafi því miður þurft að greiða skaðabætur fyrir.