136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:55]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er vont að hafa vonda siði fyrir börnunum má segja ef það vísar til þess að einhverju hafi verið lofað í minni tíð sem samgönguráðherra sem ekki hafi verið hægt að standa við og þess vegna sé í lagi að hafa uppi þau loforð sem hér er verið að fjalla um. Þetta er nú alveg afskaplega sérkennilegur málflutningur. En engu að síður er nauðsynlegt að fara yfir þetta mál í því ljósi sem ég hef gert og þess vegna geri ég athugasemdir við það sem hv. þingmaður sagði.

Ég hef lagt áherslu á að ekki má skapa væntingar sem ef til vill er ekki hægt að standa við. Menntamálaráðuneytið hefur marga milljarða í sínum ramma og ég benti hæstv. menntamálaráðherra á að þegar ákvörðunin var tekin um að leggja þetta frumvarp fram átti menntamálaráðherrann að tryggja fjármögnun til framtíðar innan síns ramma með hagræðingu, breytingum eða forgangsröð til góða fyrir þetta ágæta verkefni, að fjölga listamönnum á launum. Það er gagnrýnisatriðið sem ég hef haft uppi, að ramminn sé ekki nýttur til þess (Gripið fram í.) að kosta þau áform sem hér er verið að leggja af stað með.

Ég vona að hv. þm. Einar Már Sigurðarson gangi til verka sem allra fyrst í samstarfi við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð um að tryggja að þeir fjármunir sem til þarf verði til staðar til að þessi áformuðu lög geti orðið að veruleika, að ekki verði bara loforð rétt fyrir kosningar sem gefur lítið í aðra hönd.