136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[21:00]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. 17 millj. árið 2012 er málflutningur hv. þingmanns. Ég segi eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson: Hvers vegna var ekki tekin ákvörðun um að hafa þetta innan ramma menntamálaráðuneytisins? Af hverju var ekki forgangsraðað í þágu þessara 17 millj. kr. árið 2012? Og af hverju stendur í umsögn fjármálaráðuneytisins: „Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Vegna mikils halla á ríkissjóði mun því þurfa að fjármagna útgjöldin með lántökum“?

Er fjármálaráðuneytið að tala þarna um 17 millj. kr. árið 2012? Ég hef aldrei skilið kostnaðarumsagnir fjármálaráðuneytisins á þann veg. Ég held að hv. þingmaður sé hér í einhverjum blekkingaleik og ef hann vill stunda hann áfram getur hann gert það. Hann hefur frjálsar hendur til þess og ég mun ekki elta ólar við hann árið 2012 eða 2013 þegar það kemur í ljós að þessi tala hans er röng. Hún er sett fram til að gera þetta mál hálfhlægilegt, eins og hv. þingmaður flissar yfir eigin orðum, því að það er svo fáránlegt að halda að fjármálaráðuneytið sé með þessum orðum að tala um 17 milljónir árið 2012 að það nær ekki nokkru tali að hv. formaður menntamálanefndar þingsins komi hér og flytji þetta mál á þennan veg. Ef svo er að þetta rúmist innan ramma menntamálaráðuneytisins hvers vegna stendur þetta þá í þessari umsögn? Getur hv. þingmaður skýrt það? (Gripið fram í: Já, já.) Til hvers er hann í þessum orðaleik hér og blekkingaleik? Ég veit það ekki, ég skil ekki svona málflutning. Ef hann heldur að hann auki stuðning Sjálfstæðisflokksins við málið með svona málflutningi þá er það alger misskilningur.