136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[21:04]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég les umsögn fjármálaráðuneytisins og hún er upp á allt annað en hv. þingmaður var með, fjármálaráðuneytið er með allt annars konar ábendingar og ég er að vísa til þess. En hv. þingmaður kýs að vitna í hæstv. menntamálaráðherra sem nú segir að það sé brýnast í fjármálum hins opinbera að hækka skatta og lækka launin. Það sé það sem eigi að gera og beri að vinna að núna. Það hefur komið fram að málsvarar Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna hafa stórkostlegar áhyggjur af þessum orðum ráðherrans og það verði atgervisflótti í stétt þeirra vegna þessara orða ráðherrans. Þetta er sá hæstv. ráðherra sem hv. þingmaður kýs að vitna til sem hins ómótmælanlega spámanns um það hvernig fjárhæð sé háttað. Síðan erum við að fjalla um frumvarp frá þessum hæstv. ráðherra, frumvarp sem fjármálaráðuneytið telur að leiði til aukinnar lántöku á vegum ríkissjóðs og þó að hæstv. menntamálaráðherra reyni að útskýra það á þann veg sem hv. þingmaður las verð ég að segja að ég treysti fjármálaráðuneytinu betur í þessu efni en hæstv. menntamálaráðherra. Það er kannski okkar ágreiningur.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann telji það samrýmast þeirri stefnu hæstv. menntamálaráðherra að nú sé brýnast að hækka skatta og lækka laun að flytja frumvarp sem þetta sem leiðir til þess að bilið í fjárhag ríkisins breikkar og það verður þörf fyrir auknar lántökur að mati fjármálaráðuneytisins.