136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

lífsýnasöfn.

123. mál
[22:00]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hafa verið hér umræður um þessi söfn og komið hafa fram fyrirspurnir í þinginu um þau. Það er vitað að lögreglan safnar slíkum gögnum og þau eru geymd miðlægt m.a. hjá alþjóðlegum lögreglustofnunum. Það eru strangar reglur sem gilda um hvernig þeim gögnum er safnað og hvernig með þau er farið. Ég tel að það sé mjög gagnlegt til þess að draga úr tortryggni í garð slíkra safna að tenging sé hér á milli þannig að hv. þingmenn sem fjalla um mál eins og þetta hefðu t.d. kallað til sín sérfræðinga varðandi þessi lífsýnasöfn til þess að það væri vitneskja í nefndinni. Það hefði mátt koma fram skoðun á því í nefndaráliti til að átta sig á stöðu þeirra mála því að eins og við erum sammála um, ég og hv. þingmaður, verður þetta sífellt meira lykiltæki til þess að upplýsa afbrot. Þess vegna er það mjög mikilvægt fyrir lögregluna og kemur fram í lögum um meðferð sakamála og öðrum lögum þar sem menn fjalla um réttarvörslukerfið.

Ég held að það væri gagnlegt til þess að auka öryggi og auka gagnkvæman skilning og hefði t.d. verið æskilegt við meðferð þessa máls að kalla líka til aðila á þessu sviði til þess að hv. heilbrigðisnefnd a.m.k. hefði getað aflað sér upplýsinga um þetta.