136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

barnaverndarlög og barnalög.

19. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér framhaldsnefndarálit um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum og barnalögum frá félags- og tryggingamálanefnd. Það er á þskj. 832 og er 19. mál. Málið var lagt fram í haust og þá var 1. flutningsmaður á frumvarpinu hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Frá því að frumvarpið var lagt fram sem eitt af fyrstu málum þingsins, enda ber það lága tölu, hafa töluverðar breytingar orðið á því í meðförum félagsmálanefndar sem ég mun gera grein fyrir frekar í framhaldsnefndarálitinu.

Málinu var vísað aftur til nefndar að lokinni 2. umræðu og hefur hún fjallað um málið að nýju. Nefndin fékk á sinn fund Hrefnu Friðriksdóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Bryndísi Helgadóttur og Jóhönnu Gunnarsdóttur frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti eftir 2. umr. málsins.

Það kom ábending frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti þess efnis að ekki væri nauðsynlegt að fella inn í barnalög fortakslaus ákvæði um að óheimilt sé að beita barn líkamlegum og andlegum refsingum heldur sé nægilegt að slíkt bann sé í barnaverndarlögum, samanber fyrri breytingartillögur nefndarinnar. Bent var á að unnið væri að því í ráðuneytinu að endurskoða ákvæði barnalaga um forsjá, búsetu og umgengni. Því væri eðlilegt að bíða með breytingu á barnalögum þar til þeirri endurskoðun lyki.

Það kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að þessari vinnu miðaði vel áfram og mætti búast við að endurskoðun málsins lægi fyrir núna fyrir haustþingið.

Ekki virðist vera ágreiningur um það hjá hlutaðeigandi ráðuneytum að nægilegt sé að bannið sé fært í barnaverndarlögin. Breytingar sem nefndin lagði til á barnaverndarlögum kveða skýrt á um refsinæmi þess að beita barn hvers konar ofbeldi eða sýna af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni. Á það við hver svo sem beitir ofbeldinu, þ.e. hvort sem um er að ræða foreldri eða forsjáraðila eða aðra. Nefndin telur því rétt að bíða með breytingu á barnalögum enda þurfi hugsanlega frekari skoðunar við hvað viðkemur orðalagi og staðsetningu ákvæðisins í lagatextanum. Nefndin áréttar jafnframt að aðrar breytingar sem nefndin lagði til og gerð er grein fyrir í nefndaráliti og breytingartillögum nefndarinnar, samanber þskj. 772 og 773, séu nægilegar til að bregðast við dómi Hæstaréttar í máli nr. 506/2008, og til að tryggja það að fulltrúi barnaverndarnefndar geti verið viðstaddur skýrslutökur af barni hjá lögreglu og fyrir dómi.

Nefndin hefur fengið þær upplýsingar að endurskoðun barnaverndarlaga sem og vissra ákvæða barnalaga standi yfir. Lögin heyra hvor undir sitt ráðuneytið, hin fyrri undir félags- og tryggingamálaráðuneyti og hin síðari undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti og eru sérfræðinefndir að störfum í báðum ráðuneytum. Nefndin beinir því til hlutaðeigandi ráðuneyta að hafa samráð um endurskoðunina og þær breytingar sem af henni leiðir. Þá telur nefndin að það yrði mjög til bóta ef mál yrðu tekin fyrir á þingi á sama tíma og á það var lögð áhersla í nefndinni þannig að hægt væri að hafa heildstæða umfjöllun um efni þeirra. Jafnframt ítrekar nefndin mikilvægi þess að hugtakanotkun í 99. gr. barnaverndarlaga verði skoðuð með tilliti til þess að nota annað orð í stað lauslætis. Vísar nefndin í því samhengi til þess að árið 2007 var gerð sú breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, að orðið vændi kom í stað lauslætis. Nefndin leggur þó áherslu á að sérstök sjónarmið varðandi börn verði höfð að leiðarljósi og notast verði við hugtak sem samrýmist verndarsjónarmiðum gagnvart börnum.

Auk þeirrar breytingar sem gerð er grein fyrir hér að framan leggur nefndin til aðrar smávægilegar breytingar til leiðréttingar á texta en ítrekar að þeim breytingum fylgir ekki breyting á inntaki eða merkingu ákvæða og vísar í þeim efnum til umfjöllunar í áliti nefndarinnar um málið og breytingartillagna á þskj. 772 og 773.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 2. gr. Á eftir orðunum „svo og“ í 1. efnismálslið komi: skýrslutöku, þannig að það sé alveg ljóst að ákvæðið eigi við um skýrslutöku.

2. Við 3. gr. Í stað orðanna „eða annarri vanvirðandi háttsemi, hótunum eða ógnunum“ komi: hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni.

3. Við 4. gr. Greinin falli brott.

4. Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

Hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson, Árni Johnsen, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Helga Sigrún Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman, Kristinn H. Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Jón Bjarnason stóðu að nefndarálitinu.

Ástæðan fyrir því að titillinn breytist er að með því að fella niður 4. gr. á þetta frumvarp til laga ekki lengur við um barnalög heldur eingöngu barnaverndarlög og er þar vísað til þess og því er treyst að við endurskoðun barnaverndarlaga og barnalaga verði litið til þeirra sjónarmiða sem hér koma fram í greininni og er ekki talin ástæða til þess að vera að fara inn í þá vinnu sem nú er í gangi.

Ég endurtek og ítreka að það er mikilvægt að endurskoða lögin, bæði barnalögin og barnaverndarlögin með tilliti til þess dóms sem féll á síðasta ári og gengið hefur undir nafninu „flengingardómurinn“, og taka tillit til aðstæðna barna í dag sem eru á svo margan hátt ólíkar því sem áður var bæði hvað varðar uppeldisskilyrði og betri meðvitund hjá þjóðinni. Þjóðin er upplýstari hvað varðar ýmsa þætti sem brjóta börn niður og skemma til framtíðar sem var litið fram hjá áður og trúlega að hluta til vegna þess að fólk gerði sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif hlutir eins og einelti, ljót orð og vanhirða á ýmsum sviðum gætu haft á sálarlíf barna til lengri tíma. Síðan hafa bæst við nýjar ógnir eins og netnotkun og einelti gegnum netið, vændi í gegnum netið þar sem verið er að tæla og lokka ung börn eða ung börn notuð í því umhverfi sem þrífst í klámi og í öðru slíku umhverfi. Börn eru því að mörgu leyti óvarðari en þau voru áður og því er mikilvægt að vanda vel til verks, nota það orðalag sem bæði verndar börnin og sem notað er í dag, hafa möguleika til að grípa inn í sem allra fyrst ef einhver minnsti grunur er á misnotkun eða valdbeitingu eða illri meðferð á börnum, sama hvort það snýr að barnaverndinni eða refsingunum.

Hæstv. forseti. Ég tel að með þeirri niðurstöðu sem varð hjá nefndinni, sem breytir að mörgu leyti upphaflegu frumvarpi, er inntakið það sama. Ég treysti því að unnið verði enn frekar að innihaldi frumvarpsins eins og það var lagt fyrir í upphafi.