136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[22:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem varðar eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn.

Þetta frumvarp tekur til þriggja þátta, herra forseti. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting á ákvæðum laga um hlutafélög að skylda stjórn hlutafélags til að sjá til þess að hlutaskrá, samanber 30. gr. laganna, geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa, hlutafjáreign þeirra og atkvæðisrétt. Þá skuli stjórn félags leggja fyrir aðalfund samantekt um hlutafjáreign einstakra hluthafa, rétt þeirra til að greiða atkvæði og um breytingar sem orðið hafa á árinu. Sambærilegar upplýsingar skal stjórnin leggja fyrir um samstæðutengsl félagsins. Tilgangur þessara ákvæða frumvarpsins er að auka gagnsæi hvað varðar eignarhald og atkvæðisrétt í íslenskum hlutafélögum og koma þannig til móts við þá gagnrýni að á það hafi skort í íslensku viðskiptalífi.

Ég minnist þess er við ræddum þetta frumvarp fyrr í vor þá brast svolítið á með hlátri í þingsalnum þegar á það var bent að það ætti að hafa réttar upplýsingar í hlutaskrá og setja þyrfti sérstök lög um það. Mönnum þótti það eiginlega sjálfsagt, herra forseti, að svo væri. En það er ekki svo og það fengum við að sjá í blöðum bæjarins í gær þegar Fréttablaðið birti á 12. síðu sinni upplýsingar eða fréttaskýringu um eignarhald þingmanna í hlutafélögum, en þessi fréttaskýring og skrá var einmitt byggð á hlutaskránni sem hér um ræðir og við teljum öll, tel ég, hv. nefndarmenn í viðskiptanefnd, að rétt sé að setja í lög að hlutaskrá eigi að geyma réttar upplýsingar og skylda eigi stjórnir félaga til að sjá til þess.

Í þessari fréttaskýringu Fréttablaðsins í gær kemur fram að þingmenn séu tengdir minnst 55 félögum. Nú ætla ég ekki að segja neitt um þá flokka sem ég ekki þekki en það verður að viðurkennast að það vakti nokkra athygli mína og okkar í Vinstri grænum að þarna voru meðal níu þingmanna okkar ein fimm slík tengsl við, eins og hér sagði, hlutafélög, og okkur þótti það með nokkrum ólíkindum. Við nánari athugun kom í ljós það sem hér er lagt til að leiðrétta að hlutaskráin er einfaldlega röng, hún geymir úreltar upplýsingar, a.m.k. hvað varðar okkur þingmenn Vinstri grænna. Við nánari athugun, og það kemur fram í yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra flokksins, kemur í ljós að þau tengsl sem hér eru rakin í hlutaskrá þar sem einn er sagður meðstjórnandi, einn er sagður endurskoðandi og meðstjórnandi, einn er sagður varamaður á tveimur stöðum, fimm svokölluð tengsl, þá er niðurstaðan sú að þarna er um að ræða tvö slík sæti. Sú sem hér stendur er varamaður í stjórn einkahlutafélags sem ber nafnið Plássið, og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er stjórnarmaður Sjóminjasafnsins í Reykjavík þar sem hann gegnir reyndar stöðu varaformanns, en Sjóminjasafnið er ekki hlutafélag og ekki einkahlutafélag heldur sjálfseignarstofnun sem einnig eru geymdar upplýsingar um í hlutaskrá.

Herra forseti. Ég er ekki að rekja þetta vegna þess að þetta séu svo óskaplegir viðburðir eða fréttir heldur til áréttingar á því að hlutaskráin geymir einfaldlega ekki réttar upplýsingar á hverjum tíma. Þess vegna er hér lagt til að skylda stjórn félaga, hlutafélaga sérstaklega, til að sjá til þess að hlutaskráin geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa, um hlutafjáreign þeirra og um atkvæðisrétt. 1. minni hluti, sem ég mæli hér fyrir, leggur til að þetta ákvæði verði óbreytt og ég tel að svo sé einnig um 2. minni hluta viðskiptanefndar. Þetta var um fyrsta atriðið sem breytingar þessa frumvarps taka til.

Annað atriðið varðar áréttingu um að gæta skuli að kynjahlutföllum í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga sem og við ráðningu framkvæmdastjóra. Þar er lagt til að þetta verði tekið í lög eins og orðanna hljóðan er, með leyfi forseta, að gæta skuli að kynjahlutföllum í stjórnum.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að í tilkynningum til hlutafélagaskrár skuli sundurliða upplýsingar um hlutfall kynja í stjórn og meðal framkvæmdastjóra, svo og hlutfall kynja meðal starfsmanna eftir stöðu þeirra í skipulagi félags. Fyrir nefndinni var því hreyft og um það rætt að hér væri um of víðfeðma upplýsingagjöf að ræða og lögfesting þess kallaði á aukið skrifræði. Var vísað til þess að það væri fremur í takt við markmið frumvarpsins að einungis yrði tilkynnt um kynjahlutföll í stjórnendahópi félags og jafnvel bent á að ráða mætti kyn manna af nöfnum þeirra í tilkynningum sem nú eru sendar hlutafélagaskrá og þannig gæfi hlutafélagaskráin upplýsingar um kyn auk þess sem hún gæti skráð upplýsingar um kyn út frá þeim upplýsingum.

Nú er þess að geta, herra forseti, að í lögum um opinber hlutafélög, í 1. mgr. 63. gr. laga um hlutafélög er kveðið á um að í stjórn opinbers hlutafélags skuli tryggt að sitji sem næst jafnmargar konur og karlar. Um það var rætt í nefndinni og kom fram frá þó nokkrum umsagnaraðilum að ákvæði þessa frumvarps þyrfti að vera afdráttarlausara en svo að mæla einungis fyrir um að gætt skuli að kynjahlutföllum. Sumir gesta nefndarinnar töldu reyndar að ganga ætti lengra, jafnvel í þá veru að mæla fyrir um 40/60 kynjakvóta og í því sambandi var m.a. vísað til norskra laga um það efni en í þeim er tilgreindur lágmarksfjöldi af hvoru kyni í stjórnum hlutafélaga í hlutfalli við fjölda stjórnarmanna. Við setningu norsku laganna var gefinn mjög rúmur tími til aðlögunar. Fyrsta skrefið var stigið með því að skylda, eins og er í íslenskum lögum, stjórnir opinberra hlutafélaga til þess að gæta að réttum hlutföllum kynja miðað við fjölda en síðan var almenna markaðnum eða almennu félögunum, hlutafélögunum, gefinn tími til aðlögunar áður en það var lögfest að svo skyldi einnig vera á þeim bæjunum.

1. minni hluti, sem ég mæli hér fyrir, telur að með þessu frumvarpi sé stigið skref í rétta átt. Sum okkar hefðu eflaust viljað ganga mun lengra en það er viðurkennt í nefndarálitinu að hér sé a.m.k. stigið skref í rétta átt og við bendum á að þær upplýsingar sem hér er rætt um að safna muni gagnast Jafnréttisstofu vel við eftirlit með framkvæmd jafnréttisáætlana. Við bendum á að nú þegar hvíla skyldur á félögum samkvæmt jafnréttislögum.

Samkvæmt úttekt Hagstofu Íslands, Konur og karlar í áhrifastöðum 2008, kemur fram að um níu af hverjum tíu framkvæmdastjórum, stjórnarformönnum og stjórnarmönnum fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri séu karlar. Í úttektinni segir einnig að á tímabilinu 1999–2007 hafi kynjaskipting stjórnarmanna og stjórnarformanna nánast verið sú sama allan tímann, 22% konur og 78% karlar. Á sama tímabili, frá árinu 1999–2007, hafi hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum aukist úr 15% í 19%. Þetta er afskaplega hægfara þróun, herra forseti, og ljóst að gera þarf eitthvað róttækt til að breyta því. Hér er stigið fyrsta skrefið, skref í rétta átt, með því að skylda menn til þess að gæta að kynjahlutföllum, segja má að þetta séu almenn hvatningarorð um að gætt skuli að jafnrétti kynjanna. 1. minni hluti telur mikilvægt, verði frumvarpið að lögum svona, þetta ákvæði, að mjög grannt verði fylgst með framkvæmdinni og því hvort lögin nái þeim yfirlýsta tilgangi að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum, en hugsanlegt er að síðar þurfi að skoða aðrar leiðir og þar á ég við sérstakan aðlögunartíma eða beina lagasetningu.

Fyrsti minni hluti leggur til nokkra breytingu á þessu ákvæði, m.a. þá að sundurliðun upplýsinga um hlutföll kynja meðal starfsmanna nái aðeins til einkahlutafélaga og hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ári. Er þetta gert til að undanskilja minnstu félögin þessari tilkynningarskyldu en þessi fjöldi samræmist ákvæðum jafnréttislaga um að félög af þessari stærð, þ.e. með fleiri en 25 starfsmenn á ársgrundvelli, skuli gera jafnréttisáætlanir eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Þá er einnig lagt til breytt orðalag þannig að í stað þess að veita skuli upplýsingar um hlutföll kynja ,,meðal starfsmanna eftir stöðu í skipulagi“, eins og sagði í upphaflega frumvarpstextanum, verði kveðið á um að veittar verði upplýsingar um hlutföll kynja meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins. Úr þessum upplýsingum mætti þá ráða hversu margir karlar og/eða hversu margar konur gegna stjórnunarstöðum í félagi miðað við heildarstarfsmannafjölda þess. 1. minni hluti leggur einnig til breytingu á orðalagi 2. málsl. 2. gr. og 2. málsl. 8. gr. í þá veru að skjóta inn orðunum ,,um stjórnir“ til að hnykkja á því að þær upplýsingar sem veita skal samkvæmt ákvæðum frumvarpsins um hlutföll kynja í störfum og stjórnum skuli samkvæmt ákvæðum frumvarpsins veita samhliða því að tilkynnt er um breytingar í stjórn félagsins en ekki þarf að tilkynna samstundis um minnstu breytingar í starfsmannahaldi. 1. minni hluti, sem ég mæli hér fyrir, telur að upplýsingagjöf af þessu tagi þjóni því hlutverki að gera sýnilegan hlut kvenna og karla í starfsemi félaga til þess að leiðrétta megi halla sem slík upplýsingagjöf kann að leiða í ljós. Þannig verði náð því markmiði frumvarpsins að stuðla að jafnari hlut kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum.

Herra forseti. Sem sjá má eru fulltrúar Sjálfstæðisflokks í hv. viðskiptanefnd ekki sammála okkur í þessum efnum og telja að takmarka beri upplýsingagjöf um hlutfall kynjanna við stjórnir félaga með þeim rökum m.a. að upplýsingagjöf um annað sé viðurhlutamikil og samrýmist ekki endilega tilgangi frumvarpsins.

Ég ítreka að röksemdirnar fyrir breytingum 1. minni hluta eru þær að nú þegar hvíla skyldur á félögum sem eru með 25 starfsmenn eða fleiri og því þótti okkur eðlilegt að miða við þann fjölda og með því takmarkast þessi upplýsingagjöf við sömu félög og undanskilur minnstu félögin.

Herra forseti. Þriðja breytingin sem þetta frumvarp hefur í för með sér, verði það að lögum, er tillaga um að við lög um hlutafélög verði bætt ákvæði um starfandi stjórnarformenn. Ákvæðið byggist m.a. á áliti nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi frá september 2004. Meiri hluti nefndarinnar lagði til að stjórnarformanni hlutafélags yrði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem féllu undir eðlileg störf stjórnarformanns. Í áliti nefndarinnar kom fram að hún teldi óæskilegt að stjórnarformenn væru í reynd hluti af framkvæmdastjórn félags enda væri eitt af hlutverkum stjórnarformanns að stýra eftirliti stjórnar með félaginu. Fram hefur komið að ákvæðið, sem hér er vísað til í frumvarpinu, er byggt á grein í dönskum lögum um hlutafélög en þar á það þó aðeins við um félög sem eru skráð á markað. Við umfjöllun um þetta atriði í nefndinni var bent á að danska ákvæðið væri umdeilt auk þess sem óljóst þætti hvað teldist ,,eðlilegur hluti starfa stjórnarformanns“. Þá var rætt um að ákvæðið gæti orðið íþyngjandi fyrir minni hlutafélög. Eins og hvað varðar kynjahlutfallið skildust þarna skyndilega leiðir milli sjálfstæðismanna í hv. viðskiptanefnd og fulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks. 1. minni hluti, sem ég mæli hér fyrir, bendir á að hérlendis starfa mörg stór félög sem ekki eru skráð á markaði og má geta þess að yrði gerð breyting þannig að 4. gr. frumvarpsins næði aðeins til skráðra félaga mundi hún einungis ná til 12 hlutafélaga á Íslandi. Það, herra forseti, væri þvert á markmið frumvarpsins og tillögur þeirrar nefndar sem var starfandi og skilaði af sér í september 2004 um íslenskt viðskiptalíf. 1. minni hluti ítrekar einnig í nefndarálitinu það hlutverk stjórnarformanns að hann skuli stýra eftirliti stjórnar með félagi. Því verður að telja hættu á hagsmunaárekstrum ef stjórnarformaður er jafnframt starfsmaður félagsins þar sem hann stjórnar þá í raun eftirliti með sjálfum sér. Með ákvæðinu er stefnt að því að minnka líkur á slíkum hagsmunaárekstrum en 1. minni hluti áréttar að stjórn félags getur eftir sem áður falið stjórnarformanni að vinna einstök verkefni fyrir hana.

Til að koma til móts við ábendingar sem borist höfðu leggur 1. minni hluti til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða um að heimilt verði að fresta framkvæmd ákvæða um starfandi stjórnarformann til næsta aðalfundar eftir aðalfund árið 2009. Er þannig, herra forseti, veittur tími til aðlögunar til að ráðrúm gefist til að koma málum þannig fyrir að samræmist ákvæðum laganna, verði frumvarpið að lögum. 1. minni hluti leggur einnig til lagfæringu á 7. gr. frumvarpsins.

Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í hv. viðskiptanefnd leggja á hinn bóginn til að bann við starfandi stjórnarformanni verði takmarkað við þau félög sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda, en samkvæmt upplýsingum sem nefndinni bárust frá viðskiptaráðuneytinu þrengir þetta verulega og fækkar þeim félögum sem ákvæðið nær til. Eins og ég sagði áðan er mesta þrengingin eins og hún er í dönsku lögunum vegna aðstæðna hér á markaði og ef miðað væri við það mundi þetta aðeins ná til 12 hlutafélaga, en ákvæði frumvarpsins óbreytt að þessu leyti, eins og 1. minni hluti leggur til, tekur til um 800 hlutafélaga, stórra sem smárra. Endurskoðunarskyldan sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja til að þetta takmarkist við mundi þrengja þennan hóp niður í um 550 hlutafélög og ég tel, herra forseti, óþarft að opna fyrir þá hagsmunaárekstra, sem hér er verið að reyna að koma í veg fyrir með banni við starfandi stjórnarformönnum, í 250 félögum eins og þarna er gert ráð fyrir.

Herra forseti. Á þskj. 844 er að finna þær fjórar breytingartillögur sem ég hef gert hér grein fyrir. Þær varða smálagfæringu en einkum ákvæði um að gæta skuli að kynjahlutföllum í stjórnum auk þess sem lagður er til aðlögunartími vegna banns við starfandi stjórnarformanni, en við fyrsta atriðið sem ég nefndi, aukið gagnsæi í störfum hlutafélaga og einkahlutafélaga, gerum við ekki breytingartillögu. Ég tel, herra forseti, óþarft að lesa breytingartillögurnar upp. Ég hef gert grein fyrir tilgangi þeirra og læt lokið máli mínu.