136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er eins og fram kom í ræðu hv. formanns viðskiptanefndar, Álfheiðar Ingadóttur, samansett af nokkrum efnisatriðum sem í sjálfu sér eiga kannski ekkert endilega mikið sameiginlegt nema það að viðkomandi atriði varða hlutafélög, þetta eru aðskilin efni. Það má segja að efnisþættirnir séu af þrennu tagi. Í fyrsta lagi breytingar sem lúta að því að auka gagnsæi í starfsemi hlutafélaga. Í öðru lagi upplýsingaskyldu vegna kynjahlutfalla bæði varðandi stjórn og starfslið fyrirtækja. Og í þriðja lagi breytingar sem varða stöðu hinna svokölluðu starfandi stjórnarformanna.

Eins og fram kom í ræðu hv. formanns nefndarinnar varð ekki full samstaða í viðskiptanefnd um alla þætti málsins. Það má segja að frekar hafi verið um áherslumun að ræða en að það hafi verið mikill efnislegur ágreiningur, það voru áhöld um hversu langt ætti að ganga í því að leggja þær skyldur á félög sem frumvarpið felur í sér. Það er þó rétt að geta þess í upphafi ræðunnar að góð samstaða var um þá þætti í starfsemi félaga sem lúta að því að auka gagnsæi í starfsemi hlutafélaga. Þar má benda á 1. gr. frumvarpsins sem fjallar annars vegar um það að stjórn félags skuli gæta þess að hlutaskrá geymi réttar upplýsingar á hverjum tíma, sem er auðvitað árétting á einhverju sem ætti að vera sjálfsagður hlutur en er með þessum hætti klappað í stein með skýrari hætti en áður. Í b-lið 1. gr. er einnig lögð skylda á stjórn að færa í hlutaskrá upplýsingar um atkvæðisrétt hluthafa og skuli þar jafnframt geta allra þeirra samstæðutengsla sem hlutafélagið er í. Ég tel að þessi breyting geti verið mikilvæg til að auðveldara sé að átta sig á því bæði hverjir eiga hlutafélög og eins hverjir það eru sem fara með atkvæðisrétt og hvernig þeir hugsanlega tengjast. Þetta er afar mikilvægt.

Sama má segja um þá breytingu sem er að finna í 5. gr. frumvarpsins sem felur í sér að félagsstjórn skuli gera stutta samantekt og leggja fyrir aðalfund um hlutafjáreign einstakra hluthafa og rétt þeirra til að greiða atkvæði og sambærilegar upplýsingar skuli liggja fyrir um þau samstæðutengsl sem hlutafélagið er í. 6. gr. og 7. gr. eru af sama toga Þessi ákvæði frumvarpsins eru mikilvæg til að auka gegnsæi, að það sé skýrara hverjir það eru sem eiga í hlutafélögum og hverjir það eru sem fara með atkvæðisrétt í hlutafélögum.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur verið full samstaða um þessar breytingar í nefndinni. Þetta eru eðlilegar breytingar og má segja að þessi ákvæði hefðu hugsanlega þurft að vera fyrir hendi miklu fyrr í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað í íslensku viðskiptalífi þar sem við horfum nú fram á eða stöndum frammi fyrir þeirri stöðu að verulega erfitt getur verið að greina raunverulegt eignarhald á mörgum þeirra félaga sem hér starfa. Þetta frumvarp hefur að þessu leyti því mikilvæga hlutverki að gegna að opna þessar bækur, ef svo má segja, og gerir það að verkum að upplýsingar sem er að finna í hlutaskrá séu réttari og aðgengilegri en áður og á hverjum tíma liggi fyrir með miklu skýrari og afdráttarlausari hætti hverjir eru eigendur og hverjir fara með atkvæðisrétt. Vonandi verður það til þess, þegar þessi lagabreyting tekur gildi, að auðveldara verði að átta sig á eignatengslum og eignarhaldi í félögum og hugsanlega auðveldara að greina það ef um hagsmunaárekstra er að ræða eða ef einhverjir duldir hagsmunir eru fyrir hendi eins og oft eru grunsemdir um, t.d. þegar um er að ræða sterka aðila sem geta verið að skara eld að eigin köku innan hlutafélaga á kostnað annarra hluthafa, sem áreiðanlega má finna dæmi um í íslensku viðskiptaumhverfi í dag en er auðvitað meinsemd þegar litið er til starfsemi frjálsra fyrirtækja á markaði sem eiga að starfa í markaðsumhverfi þar sem hluthafar eiga að njóta réttar. Það er afar mikilvægt að feluleikur eins og hefur viðgengist víða í íslensku atvinnulífi verði stöðvaður. Við álítum, nefndarmenn allir, að þessar breytingar séu mikilvægar til að vinna gegn þeirri stöðu og bæta þar úr. Um þetta er samstaða og ekki gerðar athugasemdir við eða breytingartillögur, hvorki af hálfu 1. minni hluta né 2. minni hluta sem við sjálfstæðismenn stöndum að.

Nokkuð öðru máli gegnir um annan þátt frumvarpsins, þ.e. þann sem lýtur að upplýsingagjöf um kynjahlutföll. Þar er kannski ekki um að ræða grundvallarágreining milli 1. og 2. minni hluta nefndarinnar heldur erum við sjálfstæðismenn í 2. minni hluta þeirrar skoðunar að horfa eigi á stærð og umfang þess rekstrar sem í hlut á þegar verið er að taka ákvörðun um upplýsingagjöf að þessu leyti og að það verði að vera einhver skynsemi í upplýsingagjöfinni. Það verði að vera skýrt að hún þjóni einhverjum tilgangi og ekki sé um að ræða söfnun á upplýsingum eða söfnun á skýrslum og pappírum sem þjónar engum sérstökum tilgangi þegar upp er staðið.

Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni, eða það var alla vega mín tilfinning þegar við fjölluðum um þetta mál í nefndinni, að þrátt fyrir að vissulega byggju góð markmið um jafnrétti kynjanna að baki þessum tillögum frumvarpsins hefðu þær ekki verið hugsaðar til enda og það hefði kannski ekki verið hugleitt sérstaklega hvaða tilgangi öll sú upplýsingagjöf eða skylda til upplýsingagjafar þjónar sem þar er að finna.

Til þess að fara hratt yfir þessa þætti og athugasemdir okkar við frumvarpið leggjum við til að varðandi hlutafélög og raunar einkahlutafélög líka verði tekið út ákvæði sem varðar það að senda skuli hlutafélagaskrá upplýsingar um hlutföll kynja meðal starfsmanna eftir stöðu þeirra samkvæmt skipulagi. Við leggjum sem sagt til að þetta verði fellt út, bæði úr breytingartillögum sem varða lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög. Til þess að átta sig á því hvað hér er um að ræða er rétt að hafa í huga að frumvarpið leggur þá skyldu, eins og það er orðað, á bæði hlutafélög og einkahlutafélög að upplýsa hlutafélagaskrá ekki bara um kyn framkvæmdastjóra, eins eða fleiri, eða kyn stjórnarmanna heldur hlutföll kynja meðal starfsmanna í öllum hlutafélögum í landinu og öllum einkahlutafélögum í landinu hvort sem um er að ræða stór félög eða lítil.

Það er vandséð hvaða tilgangi þetta þjónar. Það má alveg skilja það að í ljósi markmiða um jafnrétti kynjanna sé talið æskilegt að afla upplýsinga um kynjahlutföll meðal framkvæmdastjóra og í stjórnum, það er skiljanlegt. Það tengist því sem hv. formaður viðskiptanefndar fjallaði um hér áðan og sneri að því hvernig jafna mætti stöðu kynjanna hvað varðar setu í áhrifastöðum m.a. í viðskiptalífinu, það varðar framkvæmdastjóra og stjórnir. En þegar kemur að því að skylda öll félög í landinu, hvort sem um er að ræða hlutafélög eða einkahlutafélög, hvort sem um er að ræða stór fyrirtæki með fjölda starfsmanna eða smáfyrirtæki með fáa starfsmenn, til að upplýsa hlutafélagaskrá reglulega um stöðu og hlutföll karla og kvenna innan sinna vébanda held ég að löggjafinn væri gjörsamlega kominn út í móa, svo að ég leyfi mér að taka þannig til orða, alveg út í móa.

Tökum dæmi. Nú er vitað — ýmsar vinnumarkaðsrannsóknir og aðrar upplýsingar annarra stofnana kalla eftir hlutföllum kynjanna í einstökum starfsgreinum og starfsstéttum og þess háttar. Ég sé ekki hverju þessi upplýsingasöfnun á að bæta við. Ef við tökum bara dekkjaverkstæðið sem ég fer á tvisvar á ári, ef ég velti fyrir mér hlutföllum starfsmanna þar, þar eru kannski 10–12 starfsmenn og þeir eru allir karlmenn. Hvaða tilgangi þjónar það fyrir þetta ágæta fyrirtæki að senda upplýsingar um kynjahlutföll til hlutafélagaskrár? Hvað í ósköpunum á að gera með þær upplýsingar? Jú, það er vitað að þeir sem vinna á verkstæðum af þessu tagi eru í langflestum tilvikum karlar, en hvers vegna á að leggja þá skyldu á þessi félög að senda slíkar upplýsingar til hlutafélagaskrár og hvers vegna á að leggja þá skyldu á hlutafélagaskrá að hafa slíkar upplýsingar í fórum sínum? Ég átta mig ekki á hvað frumvarpshöfundar eru að fara í þessum efnum. (Gripið fram í.)

Við leggjum því til að þessum atriðum verði kippt út, bæði varðandi hlutafélög og einkahlutafélög, þannig að eftir standi að þessi félög þurfi að senda upplýsingar um kynjahlutföll meðal framkvæmdastjóra og í stjórn en hvað varðar starfsmenn að öðru leyti verði ekki um að ræða skyldu til upplýsingagjafar að þessu leyti. Ég held að jafnrétti kynjanna sé á engan hátt stefnt í voða þó að þessi breyting verði gerð og þeir aðilar sem að jafnréttismálum starfa geti þá sparað sér þá skriffinnsku sem felst í því að skoða þessar upplýsingar og geti þá einbeitt sér að því að vinna úr þeim upplýsingum sem einhverju máli skipta í staðinn.

Þess ber að geta að 1. minni hluti viðskiptanefndar leggur til ákveðna breytingu í þessum efnum sem auðvitað leiðir til þess að niðurstaðan verður ívið skárri verði sú breytingartillaga samþykkt. Þar er gert ráð fyrir að ekki sé skylt að gefa þessar upplýsingar varðandi starfsmenn nema í þeim félögum sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri, það er þá viðmiðunin, þannig að allra smæstu félögunum er kippt út og væri það vissulega til bóta miðað við frumvarpstextann í sjálfu sér. En í ljósi þeirra sjónarmiða sem ég hef hér þegar rakið töldum við í 2. minni hluta sjálfstæðismanna í nefndinni miklu einfaldara og réttara að taka bara út þessa upplýsingagjöf sem varðar hlutföll kynja meðal starfsmanna þannig að tillaga okkar gengur lengra. Nái tillaga okkar ekki fram að ganga að þessu leyti er breytingartillaga 1. minni hluta viðskiptanefndar ívið skárri en frumvarpið í upprunalegri mynd.

Þriðja atriðið sem við erum að fjalla um í frumvarpinu lýtur að stöðu starfandi stjórnarformanna. Eins og fram hefur komið hefur sú þróun átt sér stað hér á landi eins og raunar víða erlendis að í félögum, kannski einkum stærri félögum, hafa stjórnarformenn í raun orðið starfsmenn, verið í föstu, fullu starfi sem stjórnarformenn og hafa þá yfirleitt verið nefndir starfandi stjórnarformenn. Þetta atriði hefur verið tekið til umræðu áður, eins og kom fram í ræðu hv. formanns nefndarinnar, í skýrslu um viðskiptaumhverfið á Íslandi sem lögð var fram árið 2004. Þá var fjallað um þetta og þar var að finna tillögu í þeim anda sem hér liggur fyrir sem fól í sér bann við því að stjórnarformaður væri í fullu starfi hjá félagi. Rétt er að rifja upp að þegar sú skýrsla kom út árið 2004 var það ákvæði gagnrýnt talsvert, m.a. af hagsmunasamtökum í atvinnulífinu, sem töldu að það væri of fortakslaust og gengi fulllangt. Það má segja að nálgun okkar sjálfstæðismanna í nefndinni byggist á því að sú stranga regla sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu eigi fyrst og fremst við stærri fyrirtæki en minni kröfur verði gerðar til smærri fyrirtækja. Er það í samræmi við margar aðrar reglur hlutafélagalaga þar sem strangari kröfur eru gerðar til stærri félaga, bæði á mælikvarða tekna, eigna, starfsmannafjölda eða fjölda hluthafa, hvort félög voru skráð á markað eða ekki.

Við teljum að þegar verið er að innleiða reglu af þessu tagi, bannreglu af þessu tagi, sé rétt að fara af ákveðinni gætni, m.a. til þess að ekki sé verið að leggja óþarfa byrðar eða kröfur á fyrirtækin, við þurfum að gæta þess. Þó að löggjafinn hafi það hlutverk að setja fyrirtækjum lagaramma verða ákvarðanir varðandi innri málefni félagsins að vera með þeim hætti að einhver sveigjanleiki sé fyrir hendi og fyrirtæki geti sjálf tekið ákvarðanir í þeim efnum og þar á meðal um þessa stöðu. Ég hygg nú, án þess að geta fært fyrir því neinar vísindalegar sannanir eða neinar rannsóknir, að í skýrslunni frá 2004 og raunar í frumvarpinu sem slíku sé bæði gert of mikið úr þeim vanda sem fylgir því að stjórnarformenn séu í starfi hjá félagi og eins að gefnar séu of miklar væntingar um það að sú breyting sem hér er boðuð skili einhverjum sérstökum árangri. Vissulega er það svo að þrátt fyrir að regla af þessi tagi tæki gildi yrðu áfram fyrir hendi möguleikar fyrir félagsstjórn til þess að fela stjórnarformanni viðamikil verkefni og umbuna honum eða launa honum í samræmi við það. Það er í sjálfu sér engin trygging fyrir því að þrátt fyrir að ákvæði af þessu tagi kæmist inn og menn gætu ekki lengur kallað sig starfandi stjórnarformenn yrði með einhverjum hætti unnt að fara fram hjá því án þess að það færi á nokkurn hátt í bága við lög.

Tillaga okkar gengur sem sagt út á það að þessi regla, bann við starfandi stjórnarformönnum, eigi fyrst og fremst við stærri félög og við völdum ákveðna viðmiðun í því sambandi. Við miðum þar við að starfandi stjórnarformenn megi ekki vera í félögum sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda í samræmi við 79. gr. laga um hlutafélög, um skyldu félags til að samþykkja starfskjarastefnu fyrir félagið, en í 79. gr. er aftur vísað til 98. gr. laga um ársreikninga, nr. 108/2006, þar sem fram eru settar skýrar viðmiðanir um það til hvaða félaga þessi regla nær. Þar eru þrjár viðmiðanir, í fyrsta lagi að eignir félags nemi a.m.k. 120 milljónum, í öðru lagi að rekstrartekjur nemi 240 milljónum, á ári að sjálfsögðu, og í þriðja lagi að fjöldi ársverka á reikningsári séu 50 ársverk. Miðað er við að það nægi að eitt af þessum markmiðum sé uppfyllt, eignir upp á 120 milljónir, rekstrartekjur upp á 240 milljónir og fjöldi ársverka upp á 50 ársverk. Það sem við erum að segja er það að félög sem eru yfir þessum mörkum megi ekki hafa starfandi stjórnarformann, félög sem eru undir þessum mörkum megi í sjálfu sér hafa starfandi stjórnarformann. Ég verð að segja að þessar viðmiðanir gera ráð fyrir að ekki sé endilega um neitt sérstaklega stór félög að ræða. Ef við horfum upp á rekstrartekjur upp á 240 millj. kr., þrátt fyrir að samdráttur hafi orðið víða í íslensku atvinnulífi, eru félög með 240 milljónir í rekstrartekjur ekkert endilega óskaplega stór. Sama á við um eignir upp á 120 millj. kr., þó að vandi íslenskra fyrirtækja sé kannski í dag mikil skuldsetning frekar en eignastaða, eru 120 milljónir ekkert endilega mjög há upphæð ef um þokkalega stærð fyrirtækja er að ræða, fyrirtæki sem ekki hafa skuldsett sig óhóflega.

Á íslenskan mælikvarða eru 50 ársverk nokkuð stórt fyrirtæki, alla vega meðalstórt fyrirtæki, en það er samt sem áður þannig að þessar viðmiðanir eru að okkar mati hóflegar. Ekki er eingöngu verið að taka út allra stærstu félögin eða bara þau félög sem eru skráð á hlutabréfamarkaði, sem eru í dag aðeins tólf eins og fram kom í ræðu formanns nefndarinnar, trúlega er verið að tala um 550 fyrirtæki sem samkvæmt þessu mundu falla undir skilgreiningu laganna, það yrði sem sagt bannað að hafa starfandi stjórnarformann í 550 fyrirtækjum. Ég tel að í þeim hópi, þessara 550 fyrirtækja, séu nú eiginlega öll þau félög sem einhver ástæða sé til að hafa áhyggjur af í þessu sambandi. Það er mín tilfinning. Menn verða síðan að meta það hvernig reynslan verður af ákvæði af þessu tagi og hugsa það í framhaldi hvort ástæða sé til þess að útvíkka það með einhverjum hætti. En ég held að í þessari lotu sé ekki ástæða til að ganga lengra.

Bann við því að hafa starfandi stjórnarformann er ný regla í íslenskri löggjöf. Fyrirtækjum hefur verið þetta heimilt. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við það. Ég bendi á að sérstaklega í minni hlutafélögum þar sem hluthafar eru fáir og jafnvel sjálfir starfandi hjá félögunum getur ákvæðið um að bannað sé að stjórnarformaður sé starfandi hjá félaginu flækst nokkuð fyrir. Ég held að menn verði að horfa á það raunsætt. Þótt við höfum hér mismunandi hlutafélagaform, annars vegar hlutafélög og hins vegar einkahlutafélög, eru sum hlutafélög, kannski ekki síst þau félög sem stofnuð voru fyrir breytinguna þegar einkahlutafélög voru tekin upp, ekki ýkja stór. Það er kannski ekki ástæða til þess þegar við hugsum um heilbrigði íslensks viðskiptaumhverfis á heildstæðan hátt að hafa áhyggjur af slíkum félögum.

Með þessu leggjum við í 2. minni hluta viðskiptanefndar til þrjár breytingartillögur og þær endurspegla, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, frekar áherslumun en stóran efnislegan ágreining í þessum efnum. Við drögum annars vegar úr kröfum um upplýsingagjöf um kynjahlutfall meðal starfsmanna og hins vegar þrengjum við vissulega þann hóp fyrirtækja sem ekki mega hafa starfandi stjórnarformann. En ég undirstrika það enn og aftur að þrátt fyrir að sú breyting sem við leggjum til nái fram að ganga verða 550 fyrirtæki á Íslandi í þeirri stöðu að geta ekki haft starfandi stjórnarformenn. Það mundi ég segja að væri veruleg breyting, sérstaklega í ljósi þess hve algengt hefur orðið á síðustu árum að stjórnarformenn séu í fullu starfi, sérstaklega í ýmsum stærri félögum.

Varðandi frumvarpið að öðru leyti er ekki ástæða til að hafa fleiri orð. Ég vildi þó að lokum vekja athygli á einu sem kemur ekki sérstaklega fram í nefndaráliti okkar í 2. minni hluta en mér finnst þó rétt að komi fram við þessa umræðu. Það er að í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis sem fylgir þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir því að samþykkt þessa frumvarps muni leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Ég vildi nota þetta tækifæri í þessari umræðu að gera athugasemdir við það. Ég held að þarna skauti fjármálaráðuneytið dálítið létt yfir því að þær auknu kröfur um upplýsingagjöf til hlutafélagaskrár sem um ræðir munu væntanlega kalla á aukin umsvif hjá hlutafélagaskrá. Hún fær þarna nýtt verkefni, hún þarf að taka við nýrri tegund af upplýsingum sem þarf að skrá og varðveita og uppfæra með reglubundnum hætti. Og væntanlega mun hlutafélagaskrá hafa eitthvert eftirlitshlutverk í þessu sambandi með því að félög uppfylli skilyrði laganna og sendi þessar upplýsingar inn. Ég held að það sé mikið óraunsæi af hálfu fjármálaráðuneytisins að þetta muni ekki leiða til neins kostnaðar.

En í blálokin vildi ég geta þess að ég held að þingheimur ætti að huga að því að efla hlutafélagaskrá en ekki með því að fela hlutafélagaskrá upplýsingasöfnun um mál sem ekki skipta tiltakanlega miklu máli. Það er söfnun upplýsinga sem ekki verður séð að þjóni neinum sérstökum tilgangi. En á hinn bóginn held ég að það sé ástæða til þess að efla hlutafélagaskrá varðandi það að hún hafi burði til þess að kalla eftir þeim upplýsingum sem hafa raunverulega þýðingu í sambandi við ársreikninga, í sambandi við að vera með nýjar upplýsingar um stjórnir, stjórnarmenn, prókúruhafa og annað þess háttar sem skiptir raunverulega máli í viðskiptaumhverfinu. En mín tilfinning er sú að hlutafélagaskrá hafi á undanförnum árum fengið töluvert mikið af verkefnum til viðbótar við það sem áður var en hafi kannski ekki bolmagn til þess að sinna öllum þeim verkefnum sem henni ber í því sambandi.

En það varðar ekki hlutverk eða tilgang þessa frumvarps sérstaklega. Ég vildi bara nota þetta tækifæri til að koma því sjónarmiði á framfæri að það þyrfti að skoða stöðu og verkefni hlutafélagaskrár, sortera út þau verkefni sem þar skipta máli og tryggja að stofnunin hafi bolmagn til að sinna þeim. Ég held að það væri mikið og þarft verk fyrir stjórnvöld og þingið á næstu missirum sem er ákveðinn hluti af þeirri endurskoðun og enduruppbyggingu sem þarf að eiga sér stað varðandi viðskiptaumhverfið hér á landi og atvinnulífið þarf að tryggja að hlutafélagaskrá geti sinnt hlutverki sínu með öflugum hætti. Ekki að hlaða endalausum verkefnum á stofnunina heldur tryggja að hún geti sinnt kjarnaverkefnum sínum svo sómi sé að.