136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[00:18]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Sú var tíðin að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vitnuðu til hugmyndafræði og hugmyndafræðinga sem kenndu sig meira í átt við hægri stefnu. En nú er það þannig að fyrrverandi þingmaður Lúðvík Jósepsson og (Gripið fram í.) hæstv. heilbrigðisráðherra eru orðnir helstu hugmyndafræðingar sem styðja málstað Sjálfstæðisflokksins eða hv. þingmanna þegar þeir tala um fundarstjórn forseta upp úr miðnætti.

Það er afar mikilvægt að hv. þingmenn fái að tjá sig í þinginu, þeir sem það vilja gera. Þannig hefur það verið í dag eins og undanfarna daga að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru mjög áhugasamir um að tjá sig um þau mál sem eru á dagskrá, hvort sem um er að ræða stór mál eða litlar breytingartillögur og flytja nokkuð ítarlegt mál. Mér þætti það mjög miður, virðulegi forseti, ef hæstv. forseta dytti það í hug að koma í veg fyrir að hv. þingmenn fái að tjá sig (Forseti hringir.) og koma skoðunum sínum á framfæri. En ég vil bara nefna það (Forseti hringir.) og ítreka að það er athyglisvert hvaða hugmyndafræðinga þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa helst að leiðarljósi í umræðunni.