136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[00:30]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 2. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Innihald frumvarpsins varðar eignarhald á hlutafélögum og einkahlutafélögum, kynjahlutverk og starfandi stjórnarformenn. Þetta frumvarp hefur verið í umræðunni innan nefndarinnar um eitthvert skeið og varðar, eins og ég vék að áðan, í fyrsta lagi breytingu á lögum um hlutafélög, í fyrsta lagi varðandi upplýsingagjöf um hlutaskrá eins og kemur fram í 1. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að stjórnin skuli gæta þess að hlutaskrár geymi réttar upplýsingar hverju sinni.

Ég verð að segja að sú krafa sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins er sjálfsögð og eðlileg krafa um að á hverjum tíma liggi fyrir upplýsingar um hverjir eru hluthafar og hve stóran hlut viðkomandi eiga í viðkomandi hlutafélagi. Það kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur fyrr í kvöld en hún benti á að í Fréttablaðinu í gær voru gefnar upplýsingar um störf þingmanna í hlutafélögum og einkahlutafélögum og í opinberum hlutafélögum. Hún benti sérstaklega á að þær upplýsingar sem byggt var á frá Creditinfo væru ekki réttar, ekki vegna þess að fyrirtækinu Creditinfo væri um að kenna heldur væru þær upplýsingar sem liggja í hlutafélagaskrá ekki réttar á hverjum tíma. Það er hlutur sem ekki gengur og í því samfélagi sem við lifum í nú þar sem hraðinn er mikill og upplýsingar eru mikilvægar og nauðsynlegar til þess að tryggja gagnsæi í viðskiptalífinu þá er þessi krafa og þetta frumvarp, sem gerir ráð fyrir því að hlutaskráin geymi réttar upplýsingar á hverjum tíma, nauðsynlegt. Reyndar segir í núgildandi lögum að svo skuli vera en með þessu frumvarpi er hnykkt á því og ítrekað að þetta séu eðlilegar kröfur, m.a. til að hægt sé að sjá öll tengsl á milli eignaraðila og milli hlutafélaga.

Sá þáttur sem ég vildi helst ræða um í þessari umræðu varðar 2. gr. frumvarpsins, varðar kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Fyrir einhverjum missirum, sennilega var það vorið 2007 og þó gæti það hafa verið eitthvað fyrr, voru gerðar breytingar á lögum um opinber hlutafélög þar sem kom inn ákvæði um að í kjöri í stjórn opinbers hlutafélags skuli tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar en skilgreining á opinberu hlutafélagi er að það er félag sem hið opinbera, einn eða fleiri hluthafar, á að öllu leyti beint eða óbeint í.

Á þeim tíma sem þetta ákvæði kom í lögin var töluverð umræða, ekki síst meðal kvenna á þingi um að eðlilegt væri að ríkið, íslensk stjórnvöld settu slík ákvæði í lög, enda væri ákvæði þess eðlis í jafnréttislögum sem ætti að tryggja jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og alveg ljóst að tölur sem voru birtar á þeim tíma bentu til þess að svo væri ekki varðandi stjórnun fyrirtækja. Ég held að sú umræða sem þá fór fram eigi ekki síður og jafnvel enn frekar rétt á sér í dag því að satt að segja hefur lítið miðað í jafnréttismálum innan atvinnulífsins frá þessum tíma. Meðal annars hefur komið fram að í júlí á síðasta ári, árinu 2008, voru 13 félög í úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands — sem er náttúrlega mun færri í dag eins og allir vita — og þar voru 18% stjórnarmanna konur en voru reyndar 7% á árinu 2004. Eitthvað hafði því þokast í rétta átt en að sama skapi hafði ekki verið mikil framför varðandi stjórnir aðildarfélaga í Samtökum atvinnulífsins. Á árinu 2004 voru 2% þeirra sem voru í stjórnum aðildarfélaga konur, 5 af 87 aðilum í stjórnum aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins, en voru komnar í 9% á árinu 2006. Einhver smáskref hafa verið tekin þó en engan veginn í þeim mæli sem eðlilegt má teljast.

Þessi umræða um konur í stjórnum hlutafélaga og konur í atvinnulífinu hefur verið í gangi um nokkuð langt skeið og það vakti m.a. athygli á sínum tíma þegar Norðmenn gerðu ákveðnar breytingar á sínum lögum og settu upp kynjakvóta í þau þar sem var áskilið að í stjórnum félaga yrðu ákveðin hlutföll, 40%, 60%, þ.e. að annað kynið yrði að lágmarki 40% í hlutafélögum. Það ákvæði í norsku lögunum hefur vakið athygli víða um heim og verið fylgst með hvernig það hefur gengið eftir og hvaða áhrif það hefur haft á stjórnun og í stjórnum fyrirtækja í Noregi. Ég hef ekki séð niðurstöður neinna rannsókna í þá veru hvaða áhrif þetta hefur haft en á hinn bóginn hefur verið meira áberandi umræða í þá veru að með því að setja ákveðnar reglur í þessa veru þá væri ákveðin hætta á því að konur yrðu valdar í stjórnir fyrirtækja ekki vegna eiginleika sinna heldur eingöngu vegna kynsins og jafnvel yrði hætta á því að konur yrðu sniðgengnar í ákvarðanatöku og ákvarðanir yrðu teknar utan stjórnanna sjálfra. Nú vil ég ekki taka afstöðu til þess hvort þessi umræða er réttmæt en samt er fyllilega ástæða til að hafa það í huga.

Á hinn bóginn geta fyrirtæki ekki litið fram hjá því að í þeim fyrirtækjum þar sem hlutverk kynjanna eru jafnari en þær tölur sem ég hef bent á innan fyrirtækja hér á landi, þ.e. eru á bilinu 10–20%, þá verður að segjast eins og er að í þeim fyrirtækjum þar sem hlutföll karla og kvenna eru jafnari, þar hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að árangur slíkra fyrirtækja er betri þar en í fyrirtækjum þar sem stjórnin er einkynja. Við vitum það og sjáum, m.a. á rannsóknum sem gerðar hafa verið af þátttöku karla og kvenna í stjórnmálum, að áherslur karla og kvenna eru mjög ólíkar í stjórnmálum sem rökstyður mikilvægi þess að hafa sem jöfnust hlutföll karla og kvenna í stjórnmálum til að sé hægt að dekka öll svið samfélagsins. En eins og gefur að skilja er það þannig að karlar og konur búa í þessu landi og í heiminum öllum í nokkuð jöfnum hlutföllum.

Ég er með fyrir framan mig viðtal við Þór Sigfússon, núverandi formann Samtaka atvinnulífsins, en í viðtali við hann í Viðskiptablaðinu 9. maí 2008 segir hann m.a. að hann leggi áherslu á það í því fyrirtæki sem hann veitti forstöðu á þeim tíma, Sjóvá, hvað fjölbreytnin geti gefið mikið. Hann bendir á að fyrirtækið nýti alla krafta starfsmanna og reyni að stýra því þannig að kynjahlutföllin séu nálægt 50 á móti 50. Hann segir síðan, með leyfi forseta:

„Fjölbreytni í rekstri fyrirtækja getur skilað alvörupeningum. Þetta er bara bisness.“

Hann segir jafnframt þá sögu að fyrir nokkrum árum síðan þegar hann vann hjá Norræna fjárfestingabankanum þá kom til landsins bankamaður frá Svíþjóð og heimsótti sjö fyrirtæki á Íslandi og svo segir hann, með leyfi forseta:

„Þegar við vorum búnir að heimsækja þau sagði hann við mig: „Ég er búinn að fara í sjö fyrirtæki og hitta um þrjátíu einstaklinga, allt karlmenn og líklega alla undir 35 ára aldri. Hvar er allt hitt fólkið?“ Það er svolítill broddur í þessu. Einhæfnin getur verið varasöm og kannski er hún hluti af vandanum hjá okkur nú. Við þurfum að nýta betur það vinnuafl sem fyrir er og ekki bara bæði kynin heldur líka yngri kynslóðir.“ Þetta eru orð að sönnu.

Þá komum við aftur að því frumvarpi sem hér er til umræðu. Þar er gerð ákveðin tilraun til að hafa áhrif á val fyrirtækja á stjórnendum sínum, bæði í stjórnum fyrirtækjanna og í æðri stöðum innan fyrirtækjanna en eins og ég sagði áðan hefði maður haldið að ef markaðsöflin ættu að ráða ættu fyrirtækin að sjá sér hag í því að hafa sem allra mesta fjölbreytni í stjórnun fyrirtækja sinna til að geta metið og mætt kröfum neytenda og þeirra sem viðkomandi fyrirtæki veita þjónustu eða starfa fyrir.

Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp í lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög ákvæði um að gæta skuli að kynjahlutföllum í stjórnum og við ráðningu framkvæmdastjóra. Einnig er gert ráð fyrir að í tilkynningum til hlutafélagaskrár skuli sundurliða upplýsingar um hlutfall kynja í stjórn og meðal framkvæmdastjóra, svo og hlutfall kynja meðal starfsmanna eftir stöðu þeirra í skipulagi félags. Í nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar kom fram, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að hér væri um of víðfeðma upplýsingagjöf að ræða og aukið skrifræði. Var vísað til þess að það væri fremur í takt við markmið frumvarpsins að einungis yrði tilkynnt um kynjahlutföll í stjórnendahópi félaga. Bent var á að ráða mætti kyn stjórnarmanna af nöfnum þeirra í tilkynningum sem nú eru sendar hlutafélagaskrá og að hlutafélagaskrá gæti skráð upplýsingar um kyn.“

Eitt er reyndar það að fá upplýsingar um þessa stöðu til að glöggva sig á þeirri þróun sem er hér á landi en ég tek undir með hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur þegar hún segir að ef til vill þurfi ákveðna hvatningu til þess að ná ákveðnum markmiðum. Ég segi aftur á móti að mér finnst það sjálfsagt að fyrirtækið taki mið af því sem best er fyrir fyrirtækið og leiti jafnt til kvenna sem karla sem stjórnenda. En í nefndaráliti 2. minni hluta viðskiptanefndar eru gerðar tillögur um breytingar á frumvarpinu sem þegar hefur verið gerð grein fyrir og ég mun ekki fara nánar út í þar sem hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir hefur sérstaklega gert grein fyrir því í ítarlegri ræðu sinni.

Ég vil nefna það sérstaklega að staða kvenna í atvinnulífinu hefur ekki verið nægjanleg og samtök eins og Félag kvenna í atvinnurekstri hafa verið ötul í að kynna stöðu mála á hverjum tíma og hafa beitt ýmsum ráðum til að afla sjónarmiðum sínum fylgis. Þau hafa m.a. birt lista yfir konur sem eru tilbúnar til að taka sæti í stjórnum fyrirtækja, konur sem eru mjög hæfar og hafa yfirgripsmikla reynslu og þekkingu í þessum málum og hafa m.a. bent á að menntun kvenna hefur aukist verulega á síðustu árum. Í eina tíð var það sagt að þegar konur menntuðu sig meira þá væri það sjálfgefið að hlutur þeirra í samfélaginu yrði meiri. Sú hefur reyndar ekki orðið raunin. Þegar við horfðum á það að konur eru 58% þeirra sem luku framhalds- og háskólanámi á árunum 2005–2006 og á síðustu árum hafa konur verið í meiri hluta þeirra sem útskrifast með æðri prófgráður en það hefur ekki endurspeglast í skipan í stjórnir félaga og kannski enn síður í stjórnunarstöðum innan fyrirtækja.

Það vakti þó athygli að eftir bankahrunið í haust var ekki síst leitað til kvenna til að taka yfir stjórnun bankanna. Það vakti sérstaka athygli úti í heimi að á þeim tíma sem verið var að skipa t.d. tvær konur sem bankastjóra í bönkunum þremur hér á landi var ég á vegum Alþingis í Genf og þingmenn annarra þjóða komu til mín með fréttir í blöðum sem birtust þar og vöktu sérstaklega máls á því að það væri athyglisvert að núna væru konur að taka við stjórn bankanna og töldu það gott merki um að Íslendingar væru framarlega í jafnréttismálum. Ég var lítið að hafa fyrir því að benda þeim á staðreyndirnar sem voru aðrar, þ.e. að hlutur kvenna í atvinnulífinu væri minni en efni standa til og lét í raun og veru þar við sitja að meðtaka boðskap þeirra sem þeim þótti ánægjulegur og mér í sjálfu sér þótti það gott en var ekki að benda á aðrar staðreyndir.

Það frumvarp sem hér er til umræðu er til þess fallið að vekja sérstaklega athygli á hlut kvenna í atvinnulífinu og vekja athygli á því að það er hægt að leita til annarra en fyrrverandi skólafélaga af sama kyni eða fótboltafélaga, það er hægt að ná betri árangri með rekstur fyrirtækisins með því að leita til kvenna til að stjórna.

Að lokum vil ég láta í ljós þá skoðun mína að ein af skýringunum á því hvað hlutur kvenna í atvinnulífinu er í raun og veru lítill er sá að hér á landi hefur það tíðkast að í þeim greinum sem konur sérstaklega mennta sig til, þ.e. í heilbrigðisgreinum og í menntamálum kennslu, þar er ríkisrekstur mjög viðamikill. Ég hef líka bent á að það er ákveðið merki um vantraust stjórnvalda á kröftum kvenna hve lítið hefur verið um að gerðir hafi verið samningar af stjórnvöldum um rekstur, m.a. innan skólakerfisins og innan heilbrigðiskerfisins og í því felist ákveðið vantraust á konur. Ef fleiri samningar væru um slík verkefni í umboði stjórnvalda mundum við strax sjá að konur spjara sig mjög vel við stjórnun fyrirtækja, hvort heldur eigin eða annarra og það er mín skoðun að stjórnvöld eigi í ríkari mæli að treysta konum fyrir slíkum verkefnum enda hafa þær sýnt að þær axla þá ábyrgð mjög vel og jafnvel betur en karlar. Í því sambandi bendi ég á Margréti Pálu Ólafsdóttur sem hefur vakið mikla athygli fyrir góðan rekstur á skólum innan Hjallastefnunnar sem hefur haft mikil áhrif á aðra ríkisrekna skóla. En í þessu frumvarpi er verið að hvetja til þess að önnur en opinber hlutafélög horfi til kvenna þegar skipað er í stjórnir og stjórnunarstöður innan fyrirtækja sinna.