136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[00:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég botna bara ekkert í þessu þinghaldi. Nú er kominn 16. apríl og við erum enn í þinginu að tala um hin ýmsu mál og nú er hlaupið fram og aftur í dagskránni. Það er þotið yfir mál nr. 11 og 12 en 12. mál á dagskrá er mál sem við sjálfstæðismenn höfum ítrekað óskað eftir að verði tekið á dagskrá. (Gripið fram í: Þúsundir starfa.) Mál sem skiptir miklu máli fyrir fólk hér á landi þar sem mörg þúsund störf eru undir. Þá er bara hlaupið yfir það, hæstv. forseti, sennilega vegna þess að það er enginn hér í húsinu til að tala um það af hálfu þeirrar minnihlutaríkisstjórnar sem hér ræður. Þess í stað á að taka fyrir málið um sjúkraskrár.

Þetta gengur náttúrlega ekki, hæstv. forseti. Maður veit ekkert hvenær maður fer heim, kvöld eftir kvöld eru hér næturfundir. Það er alveg til háborinnar skammar hvernig þinghaldi er háttað og það er kominn tími til að forseti segi frá því hvenær þessum fundi ljúki í kvöld? Og á að halda svona áfram til 25. apríl? Ég bara spyr, hæstv. forseti. (Gripið fram í: Varla lengur.)