136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar.

[10:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það hefur verið upplýst í fjölmiðlum og hér á þingi að eitt helsta kosningastefnumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir þessar kosningar sé að standa að launalækkun opinberra starfsmanna og leggja hærri skatta á heimilin í landinu. Áform vinstri flokkanna um þetta voru staðfest í umræðum á Alþingi í gær. Vinstri flokkarnir ætla að sýna sitt rétta andlit, lækka launin og hækka skattana. Það þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um það hversu baneitraður sá kokteill er að lækka launin og hækka skattana. Í því felst ekkert annað en aðför að heimilunum í landinu (Gripið fram í.) sem nú berjast í bökkum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að hækka skatta á heimilin í landinu og hafnar alfarið skattpíningu vinstri manna. Fólkið í landinu mun heldur ekki láta bjóða sér að laun verði lækkuð og skattar hækkaðir eins og Vinstri grænir ætla að gera. Miðstjórn Bandalags háskólamanna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem miðstjórnin mótmælir hugmyndum ríkisstjórnarflokkanna um launalækkanir og skattahækkanir.

Það er greinilegt og vekur furðu að formaður BSRB, hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson, ætli sér ekki að gæta hagsmuna sinna félaga. Hann virðist ætla að standa að því að lækka laun opinberra starfsmanna á spítölum, í menntakerfinu, í umönnunarstéttunum og alls staðar þar sem ríkisvaldið getur farið ofan í vasa fólksins í landinu.

Nú styttist í kosningar og ég tel að almenningur í landinu eigi að fá að vita nánar um áform Vinstri grænna og Samfylkingar í þessum málum. Þess vegna spyr ég hv. þm. Árna Þór Sigurðsson: Hvað ætla vinstri grænir að lækka laun opinberra starfsmanna mikið (Forseti hringir.) og hversu háar verða skattahækkanirnar (Forseti hringir.) sem búið er að boða? Við krefjumst svara (Forseti hringir.) og heimilin í landinu eiga rétt á upplýsingum um þetta.