136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar.

[10:43]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fall krónunnar um tæpan þriðjung fyrir 13 mánuðum markaði upphaf að miklu erfiðleikaskeiði í íslenskum þjóðarbúskap. Þá hófust miklar umræður um það hvernig mætti verja krónuna frekara falli og styrkja stöðuna í þeim erfiðleikum sem fram undan væru í heimsbúskapnum. Mest var rætt um að styrkja gjaldeyrisforðann og gera allt sem væri hægt að gera til að efla varnirnar sem við hefðum í þessum litla fljótandi gjaldmiðli og landamæralausa fjármálaheimi. Það gekk ekki eftir og krónan féll áfram út árið og endaði með gengishruni.

Núna eru ýmis batamerki eins og verðhjöðnun, vaxtalækkunarferli er hafið, vextir hafa verið lækkaðir um 2,5 prósentustig síðan peningastefnunefndin tók við í Seðlabankanum og ég held að mjög vel sé staðið að verki uppi í Seðlabanka. Menn eru að sjálfsögðu varfærnir í öllum örlagaríkum aðgerðum og verða að skoða hvernig það spilar saman við gengi krónunnar. Við styrktum gjaldeyrisvarnirnar um daginn eins og kunnugt er. Það mun skila sér. Það hefur skilað sér lítillega nú þegar, krónan styrktist lítillega í gær og aftur í morgun og ég held að hún muni styrkjast áfram enn um sinn. Það getur vel verið að það taki tíma. Mestu skiptir að ná samningum við eigendur krónu- og jöklabréfanna um hvernig gengið verður frá þeim málum.

Það hafa verið vextir af þessum bréfum á gjalddögum og það hefur fellt gengið. Á móti er skilaskylda á gjaldeyri og afurðum. Það er hagstæður vöruskiptajöfnuður þannig að batamerkin eru mörg. Mestu skiptir þó að ná utan um stöðu krónunnar af því að sé hún áfram veik eða haldi áfram að falla kemur það í veg fyrir frekari batamerki í íslensku efnahagslífi sem svo sannarlega eru í sjónmáli gangi það eftir að krónan styrkist en haldi ekki áfram að veikjast.