136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar -- orð heilbrigðisráðherra.

[10:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. En það er greinilegt að hv. þingmönnum Vinstri grænna líður illa þegar hér er talað um áform Vinstri grænna um að lækka laun og hækka skatta og ég skil það vel. Ég skil það vel vegna þess að það síðasta sem heimilin í landinu þurfa á að halda núna er þessi baneitraði kokteill sem Vinstri grænir eru að krukka hér saman, að lækka laun opinberra starfsmanna og hækka skattana.

Það þýðir ekkert að hlaupast undan merkjum og benda á Sjálfstæðisflokkinn með einhverjum smjörklípuaðferðum. Varaformaður Vinstri grænna lýsti því yfir í sjónvarpi á þriðjudaginn að Vinstri grænir vildu lækka laun opinberra starfsmanna (Gripið fram í.) og gerði enga fyrirvara um það. Það var ekki talað um neina ofurlaunaþega. Það var talað um alla opinbera starfsmenn. (Gripið fram í.) Það voru ekki gerður neinir fyrirvarar og það þýðir ekkert að benda á Sjálfstæðisflokkinn í því sambandi. Þetta er stefna Vinstri grænna og þeir ætla í ofanálag að hækka skattana á heimilin í landinu. Það er það sísta sem heimilin þurfa.

Hvar er formaður BSRB, hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson? Af hverju tekur hann ekki þátt í umræðunni hér? Hann ætti að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, félagsmanna í BSRB, sem hann ætlar núna að fara að lækka launin hjá og hækka skattana í ofanálag. Ég lýsi furðu minni á því að forsvarsmaður Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, skuli ekki vera hér og taka upp hanskann fyrir sína menn.

Ég spurði hv. þm. Árna Þór Sigurðsson tveggja einfaldra spurninga: Hversu mikið ætla Vinstri grænir að lækka laun opinberra starfsmanna og hvað ætla Vinstri grænir í samstarfi við Samfylkinguna að hækka skattana mikið? Hv. þingmaður svaraði ekki þessari spurningu og ég skora á formann (Forseti hringir.) Vinstri grænna, hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) Steingrím J. Sigfússon, að koma hingað upp og svara þessum einföldu spurningum. Heimilin í landinu (Forseti hringir.) eiga kröfu til þess að þeim verði svarað vegna þess að þetta er eitt brýnasta hagsmunamál þeirra.