136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar -- orð heilbrigðisráðherra.

[11:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra í gær. Ég verð að segja að skinhelgi sjálfstæðismanna nú er með eindæmum. Ég man ekki betur en að hv. þm. Ásta Möller og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi mælt sérstaklega fyrir að tekin yrðu upp innritunargjöld á spítala fyrir síðustu áramót með þeim rökum að ef ekki væri komið á samræmi í gjaldheimtu væri verið að búa til hvata til að leggja fólk inn að óþörfu. Var þá verið að bera fólki á brýn óheiðarleika? Var þá verið að bera heilbrigðisstarfsfólki það á brýn, hv. þingmaður, að það væri óheiðarlegt? Auðvitað ekki. Auðvitað var verið að ræða um hvaða hvatar lægju í greiðslufyrirkomulagi í heilbrigðiskerfinu sem gætu haft áhrif til aukinna ríkisútgjalda og þyrfti að hafa stjórn á. Auðvitað var það það sem hæstv. ráðherra sagði í gær.

Þótt menn séu komnir í kosningabaráttu og séu málefnalausir eins og sjálfstæðismenn hefðu þeir átt að vara sig á að fara ekki slíkar málefnaleysiskollsteypur (Gripið fram í.) eins og hv. þingmaður er kominn í núna. Það sem er auðvitað dapurlegra en tárum taki er að sjá Sjálfstæðisflokkinn ganga til kosninga án nokkurrar stefnu í ríkisfjármálum. Hann kemur hér upp og þykist verja hag heilbrigðisstarfsmanna en hefur boðað að hann ætlar ekki að taka skatta og í því felast að sjálfsögðu uppsagnir ríkisstarfsmanna. Það er engin önnur lausn sem Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á. Hann boðar 10.000–15.000 atvinnulausa opinbera starfsmenn. Þannig á að leysa efnahagsvandann með 10.000–15.000 opinberum starfsmönnum til viðbótar. Þannig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að leysa málin því að hann ætlar ekki að hækka skatta, skattahækkanaflokkurinn mikli sem skilaði okkur þó raunaukningu í skattlagningu í stjórnartíð sinni, (Gripið fram í: Þetta er ekki …) skattlagningaflokkurinn mikli sem hækkaði skatta fyrir áramót, (Gripið fram í.) brá ekki við það og boðaði frekari hækkanir á þessu ári. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn stendur eftir með enga efnahagsstefnu og enga peningamálastefnu, enga stefnu í nokkrum málum [Háreysti í þingsal.] en kemur hér inn (Forseti hringir.) dag eftir dag á hinu háa Alþingi og boðar (Forseti hringir.) engar lausnir, sömu innantómu frasana (Forseti hringir.) og það á ekkert að gera til að leysa þann vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.