136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[11:52]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bíð enn þá eftir að hæstv. heilbrigðisráðherra láti sjá sig í salnum til að ræða þetta mál. En þar sem hv. þm. Þuríður Backman, formaður heilbrigðisnefndar, er hér og hefur lokið ræðu sinni langar mig þó að beina spurningu til hennar. Hún gerði reyndar ágætlega grein fyrir því hvernig hún sér framhald málsins en það kemur hins vegar mjög greinilega fram í umsögn með frumvarpinu frá fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að talið er að það þurfi 1.500 millj. kr. til að hrinda þessu verkefni í framkvæmd.

Ekki er hægt að lesa það af ákvæðum frumvarpsins að þessa peninga þurfi til en það er samt sem áður mat ráðuneytisins að leggja þurfi til þetta fjármagn að koma málinu áfram.

Fjölmargir umsagnaraðilar, m.a. læknaráð Landspítalans, leggja ríka áherslu á óhjákvæmilegt sé að sérstök fjárveiting fylgi uppbyggingu rafrænna sjúkraskráa. Það hefur jafnframt komið fram að rafræn sjúkraskrá getur falið í sér töluverðan sparnað í heilbrigðiskerfinu varðandi ýmsa vinnu. Til dæmis getur hún komið í veg fyrir hugsanlega tvítekningu eða margtekningu rannsókna og öll upplýsingamiðlun verður einfaldari, ódýrari aðgengilegri og þar af leiðandi líka ákvörðunartaka um meðferð sjúklinga. Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að margir hafa talið að ekki þurfi að bíða í 2–3 ár með að hrinda rafrænni sjúkraskrá í framkvæmd heldur þurfi eingöngu fjármagnið til: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þessu máli verði fylgt eftir þannig að sómi sé að? (Forseti hringir.)