136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns eins og ég gerði í upphafi framsögu minnar að það kostar fjármagn að hrinda þessu frumvarpi í framkvæmd þegar það verður að lögum. Þegar er hafinn undirbúningur að því að vinna að þessari framtíðarsýn í ráðuneytinu, að koma á rafrænni sjúkraskrá. En það kostar heilmikið fjármagn ef það á að gera þetta á stuttum tíma og þarf að eyrnamerkja sérstakt fjármagn í undirbúninginn.

Því miður hefur efnahagslíf þjóðarinnar farið á hvolf. Það er allt annað núna en þegar frumvarpið var lagt fram í byrjun. Þá ríkti miklu meiri bjartsýni hjá þjóðinni og trúlega var þá talið að við gætum farið miklu hraðar í þetta en mér sýnist við geta í dag. Það er dýrt að vera fátækur. En mér finnst mikilvægt að horfa til þess hvað rafrænt sjúkraskrárkerfi getur og á að spara mikla fjármuni en það kostar að koma því á. Það verður að leggjast yfir hvað þessi upphafs- og undirbúningskostnaður er mikill og hvernig hægt er að koma kerfinu á. Mér finnst mjög mikilvægt að hraða þessari vinnu eins og hægt er. Það verður að vera fjármagn til þess en það mun skila sér til baka. En það er dýrt að vera fátækur þannig að þetta er höfuðverkur sem hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) og fjármálaráðherra og síðast en ekki síst Alþingi (Forseti hringir.) með fjárlögum standa frammi fyrir að uppfylla.