136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[11:56]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svör hv. þingmanns segja mér hve mikilvægt það er að hæstv. ráðherra komi í salinn til að ræða þessi mál. Það kom fram í máli hv. þingmanns að verið er að vinna að framtíðarsýn í þessum málum af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og mér þætti mikill fengur í því að fá fulltrúa framkvæmdarvaldsins hingað, hæstv. heilbrigðisráðherra, til að deila með okkur þessari framtíðarsýn.

Við gerum okkur öll grein fyrir í hvaða stöðu við erum í dag. En við þurfum líka að átta okkur á því að við erum að samþykkja frumvarp sem lögð er áhersla á að ljúka í dag eða á morgun og má segja að það sé sýnd veiði en ekki gefin meðan ekki liggur fyrir hvernig á að fjármagna þetta.

Það liggur jafnframt fyrir að við stöndum frammi fyrir því að skera niður í heilbrigðiskerfinu um 6,7 milljarða kr. Ekki hafa komið fram nægilegar upplýsingar frá hæstv. ráðherra um hvernig standa eigi að þessum niðurskurði, samt er komið fram yfir miðjan apríl. Ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra er kominn í salinn, hann getur þá svarað þessum spurningum á eftir. En ég tek undir með hv. þm. að þetta mál er mjög mikilvægt og ég held að við getum rætt saman um hvernig hægt er að hrinda því í framkvæmd þannig að sá sparnaður sem talinn er koma úr kerfinu, bæði vinnusparnaður og jafnframt sparnaður varðandi endurtekningu á rannsóknum og meðferðum og sú nauðsynlega upplýsingamiðlun sem slíkt kerfi hefur í för með sér og sparnaður í þeim efnum, skili sér. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við komumst að niðurstöðu um hvernig hægt er að vinna að þessu verkefni þannig að heilbrigðisþjónustan og sjúklingar (Forseti hringir.) geti haft gagn af.