136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú þegar eru notaðar rafrænar sjúkraskrár og er ekki heimilt samkvæmt lögum að samtengja sjúkraskrár milli stofnana. Meðal annars þess vegna hafa stofnanir verið sameinaðar til að það sé alveg öruggt að færsla sjúkraskránna sé lögleg innan þeirra stofnana en verið er að senda hluta af rafrænum sjúkraskrám á milli sérfræðinga, fram og til baka, og það er bara mjög mikilvægt að við höfum lagaramma sem núverandi þjónusta fellur innan. Það er mjög óþægilegt fyrir alla aðila að vera með möguleika og starfsemi sem við vitum í raun að fellur ekki innan núverandi laga. Það eru ekki til nein sérstök lög um sjúkraskrár.

Að setja lög um sjúkraskrár og móta þá þann ramma sem við erum að gera hér auðveldar allan undirbúning að innsetningu rafrænna sjúkraskráa. Verið er að vinna að gerð rammans þó að vinnan fari hægar í gang og ekki sé hægt að innleiða lögin með sama hætti og vonir stóðu til fyrir tveimur árum þegar við héldum að við gætum fengið lán fyrir öllum hlutum eða hagað okkur eins og við gerðum á þeim tíma. Núna stöndum við frammi fyrir bláköldum veruleika, þ.e. 6,7 milljarða niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni á þessu ári. Það verður að verja heilbrigðisþjónustuna og velferðarþjónustuna á næsta ári. Það er ekki hægt að ganga nær henni en gert hefur verið. Þótt útgjöldin séu mikil í byrjun er hægt að spara en það er dýrt að vera fátækur.