136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því fer fjarri að ég kveði hér hálfkveðnar vísur. Staðreyndin er sú að ég hef átt fundi með heilbrigðisstarfsmönnum um landið allt, með trúnaðarmönnum verkalýðsfélaganna, með trúnaðarmönnum ASÍ, BSRB, BHM þar sem við höfum farið yfir þessi mál og m.a. rætt þær áherslur okkar að standa vörð um þjónustuna, standa vörð um störfin og hlífa sérstaklega þeim sem minnst hafa eða eru með meðaltekjur. Að ekki undir neinum kringumstæðum verði ráðist á gerða kjarasamninga. Við munum standa vörð um það. En það er ekki þar með sagt að það séu allir ánægðir.

Halda menn að menn séu ánægðir yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn skili okkur þeirri arfleifð út úr þenslutímanum, meintu góðæri, að heilbrigðiskerfið á Íslandi dregur á eftir sér skuldahala upp á 2 milljarða rúma út úr þenslutímanum og inn í kreppuna? Auðvitað fagnar fólk ekki þeirri stöðu sem þar er uppi. Eða þeirri arfleifð sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir handa okkur, 20% verðbólgu sem hefur rýrt kjörin hjá fólkinu.

Nú er hins vegar komin á laggirnar ríkisstjórn sem er að reyna að snúa málinu við, er að reyna að jafna kjörin í gegnum skattakerfið og jafna kjörin í gegnum útgjöld heimilanna og að verja og treysta stöðu þeirra sem minnst hafa. Það er þetta sem við erum að reyna að gera gagnstætt því sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði sem tók við þjóðarbúinu, tók við stjórn þjóðarskútunnar vorið 1991 þegar tekjuskattar einstaklinga (Forseti hringir.) voru 28% af tekjum ríkisins en eru núna 34%. (Forseti hringir.) Þetta er arfleifð Sjálfstæðisflokksins og nú (Forseti hringir.) reynir hann að drepa þessari arfleifð og umræðu um hana á dreif.