136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sem skilji á milli þessa gagnagrunns og gagnarunns Íslenskrar erfðagreiningar sé eignarhaldið. Það er eiginlega eingöngu svo því þarna er ríkið eigandi. Þarna eru læknar sem vissulega stunda vísindarannsóknir á sínu sviði nákvæmlega eins og hjá Íslenskri erfðagreiningu, læknar sem starfa sem sérfræðingar við háskólann, prófessorar og ég sé ekkert á móti því að þeir nýttu þessar upplýsingar í sínar vísindarannsóknir í háskólanum.

Herra forseti. Ég sé ekki stóran mun á því hvort einhver einstaklingur vinnur sem opinber starfsmaður við eitthvað eða hvort hann vinnur sem starfsmaður hjá einkafyrirtæki. Ég sé ekki stóran mun á því og alveg sérstaklega þegar tryggt er með þagmælsku og öðru slíku að sömu reglur gildi um það allt saman þá sé ég ekki stóran mun á því hvort eigandinn sé ríkið eða eitthvert hlutafélag.