136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs áður en ég heyrði andsvar hv. þm. Daggar Pálsdóttur og vil taka heils hugar undir hvert einasta orð sem frá henni kom. Ég tel að grundvallarmunur sé á þessari rafrænu sjúkraskrá eða lagagrunni undir hana annars vegar og hins vegar hinum umdeilda gagnagrunni sem var til umræðu hér fyrir nokkrum árum. Það er sitt hvað að gera gagnagrunn sem á að þjóna sjúklingunum fyrst og fremst annars vegar og hins vegar hinu að gera gagnagrunn sem vissulega á að þjóna sjúklingum en fyrirtækjum eða öllu heldur fyrirtæki jafnframt með áherslunni á fyrirtæki. Menn sáu þá hættu í því efni að gagnagrunnurinn væri hugsaður sem verslunarvara og á tímabili jafnvel boðinn eða upplýsingar úr honum tryggingafyrirtækjum til kaups. Það fóru fram viðræður við þau. Ég er með gögn um það efni. Niðurstaðan er því ekki sú sama. Þó tæknin kunni að vera áþekk sem menn eru að horfa til þá er niðurstaðan allt önnur.

Síðan er hitt að varnaðarorð hv. þm. Péturs H. Blöndals eru umhugsunarverð og við höfum oft verið samherjar þegar persónuverndin er annars vegar. En í þessu efni, þegar skilgreina á gagnagrunninn og bera hann saman við gagnagrunninn sem hér var hvað umdeildastur fyrir nokkrum árum, þá er þessu ekki saman að jafna.