136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:19]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er það augljóst á þessari umræðu að hún mun taka býsna langan tíma. Meðal annars hefur hæstv. heilbrigðisráðherra blandað sér mjög í umræðurnar og ég veit ekki hvort hans upplegg er að vera hér í málþófi til þess að heimild til samninga um álver í Helguvík komist ekki á dagskrá. En, hæstv. forseti, ég held að það sé algerlega nauðsynlegt núna á þessum punkti að fresta umræðu um sjúkraskrár og taka fyrir 8. mál á dagskrá sem er heimild til samninga um álver í Helguvík.

Hæstv. forseti. Ég fer fram á það vegna þess hversu margir eru á mælendaskrá og hversu mikinn áhuga hæstv. heilbrigðisráðherra sýnir þessu máli — hann þarf greinilegan góðan tíma til að ræða þetta mál — að við getum núna tekið fyrir heimild til samninga um álver í Helguvík.

Ég leita eftir því við hæstv. forseta að hann breyti núna til, af því að hann hefur verið býsna glaður við að færa fram og aftur (Forseti hringir.) í dagskránni, og taki fyrir þetta merka atvinnumál.