136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Aðeins til skýringar: Við erum að ræða mjög mikilvægt mál. Það hefur fengið góða umræðu. Breið pólitísk sátt er um málið. Það var flutt af fyrri ríkisstjórn. Það er stutt af þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Málið er útrætt. Öll rök hafa komið fram. Það var hins vegar óskað eftir því sérstaklega að ég kæmi og væri við umræðuna og svaraði spurningum sem fram voru reiddar. Þetta kallar hv. þm. Sjálfstæðisflokksins núna málþóf. (Gripið fram í: Já, þú ert í málþófi.) Ég var að svara spurningum hv. þingmanns.

Hins vegar er þjóðin að verða vitni að mestu lágkúru í stjórnarandstöðu sem sögur fara af og verða vitni að því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn rekur þessa kosningabaráttu á útúrsnúningapólitík, reynir að tína eitthvað út úr málflutningi manna (Gripið fram í: Skatta ...) og snúa út úr orðum manna. (Forseti hringir.) Þetta er óskaplega léttvægt og ég leyfi (Forseti hringir.) mér, hæstv. forseti, að nota hugtakið lágkúrulegt.