136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:22]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur um að við teljum mjög brýnt að frumvarpið um fjárfestingarsamninginn varðandi Helguvík komi hér á dagskrá eins og við sjálfstæðismenn erum margoft búnir að kalla eftir síðustu daga. Málið er stórt og brýnt vegna þess að það er atvinnuskapandi og það varðar þess vegna heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Þó svo það mál sem við nú ræðum um sjúkraskrár sé mikilvægt mál og þau mál sem þarna koma á eftir á dagskránni þá tel ég að mun brýnna sé að Helguvíkurmálið nái fram að ganga og mun brýnna, virðulegi forseti, heldur en til dæmis það mál sem var til umræðu í gær og afgreiðslu í morgun um fjölgun listamanna á launum hjá ríkinu.