136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er dálítið sérstakt að hæstv. heilbrigðisráðherra tali hér um lágkúru, lágkúrulegan málflutning okkar sjálfstæðismanna þegar við vísum í orð varaformanns hans flokks, Katrínar Jakobsdóttur sem hefur lýst því yfir að lækka eigi laun opinberra starfsmanna vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra er auðvitað formaður BSRB en virðist ekki treysta sér til að andmæla varaformanni sínum. Ég hef saknað hans í umræðunni um þetta. En ég skil vel að honum líði illa undir þessum lestri eigin varaformanns. En að tala um málflutning okkar sjálfstæðismanna hér sem málþóf og lágkúrulegan er eins og að kasta steinum úr glerhúsi. Man hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því þegar hann stóð í þessari pontu í á sjöunda tíma til þess að fjalla um einn fjölmiðil, Ríkisútvarpið? (Forseti hringir.) Man hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því (Forseti hringir.) þegar hann hvatti fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra (Forseti hringir.) til þess að standa hér klukkutímum saman og lesa upp úr (Forseti hringir.) Frelsinu eftir John Stuart Mill í umræðum um fjölmiðlafrumvarpið?