136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég minni á það að ég spurði áðan um afstöðu hæstv. forseta til framhalds þingstarfanna í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið í sambandi við stjórnarskrármálið. Varðandi aðra þætti vil ég geta þess að við höfum gjarnan kosið að eiga nánara samtal við m.a. hv. þingflokksformann Framsóknarflokksins í sérnefndinni en því var hafnað. Ég hygg að ef við hefðum átt lengra samtal við hv. þingmann þá hefði ýmis misskilningur sem fram kemur í máli hennar skýrst frekar og vonandi verður það rætt þegar málið kemst á dagskrá. Þá vonast ég til þess, hæstv. forseti, að við getum rætt við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur af einhverri yfirvegun og málefnalega án þess að hún hreyti ónotum í menn og geri mönnum upp rangar sakir.

Ég minni hins vegar á að við sjálfstæðismenn höfum frá upphafi varað við þeim leiðangri sem farið var í í sambandi við flutning þessa frumvarps. Við höfum alltaf, frá upphafi bent á að það þyrfti að fara í þetta mál með öðrum og vandaðri hætti. Við lítum hins vegar svo á að útspil okkar í nefndinni sé til þess fallið að búa til ákveðinn samkomulagsgrundvöll og höfum verið til í að ræða það frekar innan nefndarinnar en ekki reyndist áhugi á því á þeim vettvangi. Við hörmum það auðvitað en vonumst til þess að síðar í umræðunni eða í síðari nefndarstörfum um þessi mál getum við hugsanlega komist að yfirveguðum niðurstöðum í þessum efnum, herra forseti.