136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér voru að koma fram mikilsverðar upplýsingar um að sérnefnd um stjórnarskrármál hafi lokið störfum eða lokið fundi sínum. Því legg ég til, hæstv. forseti, að við höldum þeirri dagskrá sem við höfum núna, ljúkum þeim málum sem við erum um það bil að ljúka, um frumvarp um sjúkraskrár. Um það mál er full samstaða og allir flokkar hafa lýst yfir að mikilvægt sé að gera það að lögum nú á þessu þingi. Að við klárum þá umræðu, förum síðan í umræðu um frumvarp til laga um stjórnarskrárbreytingarnar þannig að það sé hægt að ræða þær tillögur sem komu fram á fundi nefndarinnar, ljúkum 2. umr. og afgreiðum þetta eins og ber að gera milli 2. og 3. umr. og ljúkum þá umræðu um stjórnarskrárbreytingarnar. Eftir það er hægt að taka inn á dagskrána þau mikilvægu mál sem Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir, Helguvík o.fl. Göngum nú í þessa dagskrá eins og hún er og tefjum ekki umræðuna um frumvarpið um sjúkraskrár meira en ástæða er til, leiðum fram athugasemdir og förum vel yfir málið en látum þar við sitja.