136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:40]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnast geðbrigði hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og hæstv. utanríkisráðherra undarleg. Það sem við vorum að gera var að rétta fram sáttarhönd í sérnefnd um stjórnarskrármálið. Við ætluðumst aldrei til að menn tækju því sem við vorum að segja eins og guð hefði sagt það og að það bæri að fara eftir því í einu og öllu, heldur var þetta okkar útspil til sátta í málinu.

Við leggjum áherslu á að koma til móts við þau sjónarmið að náttúruauðlindirnar sem ekki eru í einkaeignarrétti séu undir handhöfn ríkisins, við erum að koma til móts við það sjónarmið. Allt tal um annað hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur eða hæstv. utanríkisráðherra byggist á einhverri rangri lagatúlkun og rangri hugsun hvað þetta varðar. Gríman er fallin, segir hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Hvaða gríma? Það liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til að standa að breytingu á stjórnarskrá og (Forseti hringir.) vill stuðla að því að fram fari vönduð vinna í því sambandi, (Forseti hringir.) til að það sé farið að með þeim hætti sem gert er með nágrannaþjóðum okkar til að koma á vandaðri stjórnarskrá.