136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:44]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er mjög undarlegt að verða vitni að þessum umræðum. Við lögðum fram tillögu til sátta í sérnefndinni um stjórnarskrármálið og hv. þingmaður sem ræðst síðan á okkur fyrir að hafa kastað einhverri grímu vildi ekki einu sinni segja eitt einasta orð um málið í sérnefndinni, einmitt þegar tækifæri var til þess að taka þátt í umræðum um þetta, virðulegi forseti. Til þess þá líka að benda okkur á ef þetta væri svona stórhættulegt eins og nú kemur fram í þingsalnum. En að sjálfsögðu þar, eins og alls staðar annars staðar þegar menn lesa þessa tillögu okkar, virðulegi forseti, — og þess vegna er æskilegt að fá að vita hvernig forseti ætlar að haga fundarstörfum svo það sé hægt að ræða þetta mál til hlítar — vita náttúrlega allir að við erum ekki að taka þetta mál á þann hátt sem hv. þingmaður heldur fram. Það stendur í tillögu okkar að þetta verði í forsjá ríkisins, eign ríkisins og að meðferðin verði ákveðin af Alþingi.