136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:08]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram að ræða frumvarp til laga um sjúkraskrár. Í síðustu ræðu minni fjallaði ég um þá breytingu sem hv. heilbrigðisnefnd leggur til við 15. gr. Ég vænti þess að einhverjar skýringar komi frá formanni nefndarinnar, hv. þm. Þuríði Backman, í lok þessarar umræðu. Ég hef í millitíðinni verið að skoða þetta betur af því að ég átta mig ekki alveg á hvaða rök liggja að baki þeirri breytingu sem lögð er til, ég fór til upprifjunar að kíkja á þær athugasemdir sem bárust við meðferð frumvarpsins.

Eins og fram kemur í frumvarpinu var það lagt fram síðastliðið vor og hv. heilbrigðis- og trygginganefnd, eins og hún hét þá, sendi það út til umsagnar. Frumvarpið var síðan tekið fyrir á haustþingi en náði ekki fram að ganga. Vinnubrögðin af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, eins og það hét þá, voru með þeim hætti að ég sem formaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið var kvödd til og fór yfir þær umsagnir sem þá höfðu borist. Var það gert í góðu samstarfi við embættismenn ráðuneytisins og tekið var tillit til mjög margra — ef ég man rétt nánast allra — efnislegra athugasemda sem fram höfðu komið frá umsagnaraðilum sem sent höfðu umsögn til þingsins. Í þeirri mynd er frumvarpið síðan lagt fram í haust á þskj. 205 — þetta er raunar rakið í athugasemdum við frumvarpið.

Það kemur fram hvaða breytingar ráðuneytið gerði og 15. gr. var óhögguð frá því sem var. Engar breytingar voru gerðar á henni enda ekki talin ástæða til. Ég árétta það, sem fram hefur komið í annarri hvorri ræðu minni, að þetta fyrirkomulag, um aðgang að sjúkraskrám látinna, var eitt af stóru málunum í nefndinni. Við eyddum talsverðum tíma í að ákveða með hvaða hætti þessu yrði sem best fyrir komið, m.a. út af þeim þekkta ágreiningi sem verið hefur milli landlæknisembættisins og heilbrigðisráðuneytisins um það hvernig túlka eigi lögin um réttindi sjúklinga.

Frumvarpið var síðan lagt fram aftur í haust og einhverjar umsagnir bárust, ekki mjög margar enda búið að taka tillit til flestra umsagna. Ég kom síðan á fund hv. heilbrigðisnefndar í janúar þar sem farið var yfir frumvarpið. Ég minnist þess ekki að í neinum þeim umsögnum sem þá lágu fyrir nefndinni hafi sérstakar athugasemdir verið gerðar við 15. gr. Mér er það því talsvert umhugsunarefni hvaðan þær hugmyndir koma að breyta orðalagi með þeim hætti sem gert er í breytingartillögu nefndarinnar, ekki síst af því að því er að mínu mati breytt á versta veg sem hægt er, þ.e. að vísa í lögin um réttindi sjúklinga sem geyma nákvæmlega engin ákvæði um það hvaða reglur gilda. Þvert á móti hefur margsinnis komið upp lögfræðilegur ágreiningur um það hvaða reglur gilda um aðgang að sjúkraskrá látinna samkvæmt gildandi lögum um réttindi sjúklinga. Leyst hefur verið úr þeim ágreiningi með tilteknum hætti af hálfu ráðuneytisins og í andstöðu við embætti landlæknis sem telur að þetta eigi alltaf að vera með dómsúrskurði. Ég furða mig því á því að þessi leið skuli farin.

Ég hefði talið miklu skynsamlegra að sníða agnúa af 15. gr. — ef einhverjir eru, ég raunar sé ekki hvaða agnúar það eru. Ég tel að það sé betra að fara þarna hægt í opnun en hratt — frekar en að skila auðu með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu. Ég árétta því fyrirspurn mína til formannsins, hv. þm. Þuríðar Backman, um það (Forseti hringir.) hvaðan þessi breytingartillaga kom og hver séu rökin fyrir henni.