136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:29]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við munum taka þetta til umræðu á fundi heilbrigðisnefndar í kvöldverðarhléi, sem er gott, þannig að við getum leitt þetta mál til lykta. En mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort það hefði verið eitthvert sérstakt ákvæði laga um réttindi sjúklinga sem nefndin hafði í huga þegar hún vísar í ákvæði laga um réttindi sjúklinga.

Í IV. kafla um meðferð upplýsinga í sjúkraskrá um aðgang að sjúkraskrá í lögum um réttindi sjúklinga get ég í fljótu bragði ekki alveg séð hvaða ákvæði það er sem verið er að meina. Ef það er rétt niðurstaða hjá mér er því meiri ástæða til þess að orða ákvæðið með ákveðnari hætti til þess að ljóst sé hvernig við viljum að það líti út, hvernig eigi að tryggja aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings og með hvaða hætti við viljum að það sé gert. Ég tel að það sé einsýnt að við þurfum annaðhvort að skýra þetta ákvæði með vísan í sérstaka grein eða að koma þeim texta inn í frumvarpið sem við viljum að komi inn sem lagaskýring í greinargerð, hvernig við viljum að ákvæðið sé meðhöndlað.

Það er það verkefni sem fyrir okkur liggur en spurning mín var hvort nefndin hefði haft í huga eitthvert sérstakt ákvæði IV. kafla laga um réttindi sjúklinga í kaflanum um meðferð upplýsinga í sjúkraskrá og hvaða ákvæði það væri þá .