136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:33]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða um ákvæði 15. gr. frumvarpsins um hvernig eigi að umgangast sjúkraskrá þegar sjúklingur er látinn. Ég vil þakka hv. formanni heilbrigðisnefndar góð svör í þá veru og ekki síst þau svör sem hún gaf mér nú síðast varðandi þá tilvísun sem hún hafði til hliðsjónar við samningu á þeirri grein og þeim breytingum sem eru lagðar til af hv. heilbrigðisnefnd á 15. gr. laganna.

En það er alveg ljóst að við þurfum að skoða þetta nánar í nefndinni því mikilvægt er að þetta ákvæði sé alveg skýrt því eins og kom fram í máli hv. þingmanns þá geta komið þau tilvik að það reyni á þetta og þegar á þetta reynir er það oft vegna ágreinings viðkomandi ættingja látins sjúklings.

En við höfum verið að fjalla vítt og breitt um þetta frumvarp og þar er m.a. rætt um ýmis grundvallaratriði varðandi sjúkraskrár og varðandi rafræna sjúkraskrá og sjúkraskrárkerfi. Í nefndinni var m.a. rætt um ýmis þau atriði eins og sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga hver er réttur sjúklinga varðandi aðgang að sjúkraskrá og aðrar upplýsingar sem liggja í sjúkraskrá.

Jafnframt var lögð áhersla á það í nefndinni að skoða hvernig hægt er að tryggja að færsla upplýsinga í sjúkraskrá væri með því að auðkenna það sjúklingi og auðkenna það starfsfólki sem hefur aðgang að slíkri skrá.

Í þriðja lagi var fjallað um hvernig aðgangstakmarkanir sjúklingar geta sjálfir haft áhrif á. En meginreglan er sú, eins og hefur komið fram fyrr í dag, að einungis þeir heilbrigðisstarfsmenn sem hafa sjúkling til meðferðar hafi aðgang að sjúkraskrá hans.

Við vitum að með því að samtengja sjúkraskrár með þessum hætti þá erum við að skapa möguleika á að einstaklingur sem liggur inni á sjúkrahúsi eða þar sem upplýsingar liggja fyrir um hann, geti orðið berskjaldaður þar sem á einum stað liggja mjög viðkvæmar upplýsingar um heilsufarssögu hans sem ýmsum getur þótt forvitnilegt að komast í. Jafnframt þarf því að skoða mjög nákvæmlega hvernig hægt er að vernda viðkomandi sjúkling.

Ég hef áður bent á að þær upplýsingar sem liggja þarna séu sambærilegar en þó með öðrum hætti og upplýsingar sem hægt er að nálgast t.d. hjá kreditkortafyrirtækjum eða bönkum þar sem hægt er að skoða neyslumunstur einstaklinga og fjölskyldna með heildstæðum hætti. Að sama skapi er hægt á einu bretti með samtengingu slíkra upplýsinga sem liggja í sjúkraskrá hægt að fá fullnægjandi upplýsingar um heilsufarssögu sjúklinga sem væri hægt að nota í annarlegum tilgangi, ef svo ber við. Því er mjög mikilvægt að vel sé frá öllu gengið varðandi aðgang að slíkum upplýsingum.

Jafnframt var töluvert rætt um það innan nefndarinnar hvaða upplýsingar er talið nauðsynlegt að skrá í sjúkraskrá. Það er nú ljóst að í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er heil grein, 6. gr., sem tekur á um það hvað það er, hvaða lágmarksupplýsingar eiga að liggja fyrir í sjúkraskrá. Ég tel það vera til mikilla bóta því oft er það svo að upplýsinga sem aflað er í sjúkraskrá eða getur verið, ég er ekki að segja að það sé oft, en það getur verið að þar liggi upplýsingar sem er ónauðsynlegt að afla. Því er mjög mikilvægt að fyrir liggi forskrift að því hverjar eru grunnupplýsingar sem aflað er og ekki sé verið að afla upplýsinga um það sem ónauðsynlegt er fyrir meðferð sjúklings. (Forseti hringir.)