136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:50]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni er ekkert í lögum um réttindi sjúklinga sem heimilar aðgang að sjúkraskrám nema 14. gr. því 12. gr. er um þagnarskyldu og annað slíkt og hún hjálpar okkur ekkert. Þó að hún sé eftir þá breytir það engu. Það er 14. gr. sem er grunnurinn.

En ég ætla aðeins til áréttingar að nefna að við megum ekki gleyma lögunum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það er vissulega ákveðið flækjustig í þessu regluverki um sjúkraskrár. Í lögunum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga erum við með ákvæði um hvernig hægt er að fara í slíkar upplýsingar. Þar eru viðkvæmar persónuupplýsingar sérstaklega skilgreindar í 8. tölulið 2. gr. eða sem sé 1. mgr. 2. gr. þar sem m.a. er talað um upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja,- áfengis- og vímuefnanotkun. Það er því alveg klárt og hefur verið túlkað þannig að aðgangur að sjúkraskrám getur í sumum tilvikum fallið undir þau lög.

Þá komum við að 9. gr. þessara sömu laga þar sem eru sérstakar heimildir, þ.e. lagaheimildir sem veita aðgang að sjúkraskrám umfram þá þetta frumvarp til laga um sjúkraskrár og lög um réttindi sjúklinga. Því þar er talað um að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, t.d. vinnsla heilsufarsupplýsinga, er óheimil, segir í lögunum um persónuvernd, nema að uppfyllt séu viss skilyrði. Og það er auðvitað alltaf samþykki, sérstök heimild í lögum og síðan segir í 8. tölulið:

„Vinnslan sé nauðsynleg vegna læknismeðferðar“ — það mundi vissulega aldrei eiga við um sjúkraskrá látins einstaklings — „eða vegna venjubundinnar stjórnsýslu á sviði heilbrigðisþjónustu, enda sé hún framkvæmd af starfsmanni heilbrigðisþjónustunnar sem bundinn er þagnarskyldu.“

Það er auðvitað ekkert útilokað að aðgangur að sjúkraskrá látins geti í einhverjum tilvikum fallið undir þetta ákvæði (Forseti hringir.) og það mundi þá koma til fyllingar 15. gr. hvernig sem hún mundi líta út að lokum.