136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:53]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs að nýju um frumvarp um sjúkraskrár sem við höfum rætt í dag og teljum vera til mikilla bóta fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu. En það var eitt atriði sem ég átti eftir að ræða frekar um og það var um aðgang annarra stétta en skilgreindra heilbrigðisstétta.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu ræddi nefndin m.a. um athugasemdir sem komu fram í þá veru að aðrir en löggiltar heilbrigðisstéttir þurfi að hafa aðgang að sjúkraskrá og þurfi jafnvel að geta fært upplýsingar inn í sjúkraskrána. Ég á þá m.a. við sjúkrahúspresta og ýmsa aðra sem vegna starfa sinna þurfa að hafa aðgang að upplýsingum til þess að geta gegnt störfum sínum.

Í athugasemdum vísindasiðanefndar við samhljóða frumvarp á 135. þingi, segir, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir á að aðrar stéttir sem vinna að heilbrigði fólks utan hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu eða starfsstöðva heilbrigðisstarfsmanna en eru ekki heilbrigðisstarfsmenn í skilningi frumvarpsins, safna umtalsverðum og einatt viðkvæmum upplýsingum um hagi, líðan og heilsu einstaklinga sem til þeirra leita. Þrátt fyrir orðalag 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er óljóst hvort ákvæði þess nái yfir skráningu gagna sem jafna má sjá við sjúkraskrá í þessari starfsemi. Hér er t.d. átt við græðara.

Á sjúkrahúsum og víðar í heilbrigðiskerfinu starfar fólk sem veitir mikilvæga þjónustu sem ekki fellur undir læknisfræði, hjúkrun eða skyldar greinar. Hér má nefna presta, félagsráðgjafa, svo og starfsmenn með fjölbreytilega sérfræðikunnáttu sem veita margvíslega hagfræði- og rekstrarfræðilega og tæknifræði- eða raunvísindalega þjónustu við þætti í heilbrigðisþjónustunni, þar með talið í meðferð sjúklinga. Starfa sinna vegna þurfa prestar sjúkrahúsa og félagsráðgjafar að eiga aðgang að sumum upplýsingum sem eru skráðar í sjúkraskrá. Hag- og rekstrarfræðingar þurfa hins vegar annars konar upplýsingar sem skráðar eru vegna áætlana- og fjárlagagerðar og rekstrar sjúkrastofnana. Þeir hópar sem hér eru nefndir þurfa því aðeins aðgang að hluta af þeim upplýsingum sem eru færðar í sjúkraskrár. Ástæða kynni að vera til þess að skoða sérstaklega með hvaða hætti er unnt að lagskipta aðgangi að sjúkraskrám. Þannig fengju t.d. félagsráðgjafar eða sjúkrahúsprestar aðeins aðgang að þeim upplýsingum sem varðar samband þeirra við sjúkling sem í hlut á hverju sinni.

Hafa ber í huga að sjúkraskrá er jafnframt ákveðinn samskiptamiðill þeirra sem þjónusta sjúkling með einum eða öðrum hætti. Þeir sem koma að umönnun sjúklings eða vinna að velferð hans en eru ekki heilbrigðisstarfsmenn í þröngum skilningi, t.d. prestar og félagsráðgjafar, ættu að eiga þess kost að koma á framfæri upplýsingum sem fylla í heildarmyndina og geta haft þýðingu fyrir ákvarðanir um meðferð.“

Þessi umræða var tekin í nefndinni en sökum þess að ég átti ekki kost á að vera viðstödd þá umræðu langaði mig til að spyrja formann heilbrigðisnefndar þar sem ekki er hægt að ráða af texta nefndarálitsins hvernig þetta mál var leyst. Mig langar að fá frekari upplýsingar frá hv. þingmanni hvernig hún sér fyrir sér svar við þeim spurningum sem vísindasiðanefnd leggur hér fyrir um aðgang annarra stétta að sjúkraskrá, og óska eftir því að hv. þingmaður svari mér á eftir.