136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[18:00]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni gott svar enda þekkir hún vel til málsins. En mig langaði í þessu sambandi að velta upp því sem kemur fram í umsögn vísindasiðanefndar sem undirrituð er af Birni Rúnari Lúðvíkssyni, formanni vísindasiðanefndar, þar sem bent er á að starfsstéttir sem ekki eru heilbrigðisstéttir, eins og prestar og félagsráðgjafar, færi ekki sínar upplýsingar í sjúkraskrár en þær upplýsingar gætu komið öðrum heilbrigðisstéttum sem taka ákvarðanir varðandi heilbrigðisvanda að gagni.

Mig langaði að vita hvort slík umræða hefði komið upp innan nefndarinnar sem samdi frumvarpið. Við erum svo heppin að hafa formann nefndarinnar á þinginu núna og getum því milliliðalaust rætt við hann en mig langaði að vita hvort þessi umræða hefði komið upp í nefndinni og hvort einhverjar lausnir hefðu komið þar fram á því.

Það er ljóst að í þeirri umsögn sem ég er að vitna hér til frá vísindasiðanefnd er lagt til að unnið sé að því að byggja upp gagnabanka um skilgreinda sjúkdóma og sjúkdómaflokka sem byggja á sjúkraskrárupplýsingum sem m.a. eru tengdar persónugreinanlegum gögnum. Gagnabankarnir eru ekki eiginlegur hluti sjúkraskrár eins og kemur hér fram en þær upplýsingar sem mynda grunnana eru þó geymdar sem slíkar og í þessum gagnabönkum liggja, eftir því sem ég skil málið, upplýsingar sem eru ekki eingöngu frá heilbrigðisstarfsmönnum heldur einnig frá öðrum aðilum.