136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[18:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja það sem skoðun mína að ég held að það sé mjög skynsamlegt af hálfu frumvarpshöfunda að ganga fremur lengra en skemur í því að kveða á um það hvað skuli vera í sjúkraskrá og um meðferð á opnun og lokun sjúkraskráa. Ég held að mjög skynsamlegt sé við þær aðstæður sem nú eru þegar menn eru að stíga þessi skref, að frumvarpið sé frekar strangt að þessu leyti og menn gætu þá frekar þegar á einstök ákvæði fer að reyna lagfært þau eftir því sem reynslan kennir manni en ekki að ganga of langt í því að hafa þetta matskennt eða frjálslegt. Ég er mjög ánægð með að það skuli hafa verið viðhorf frumvarpshöfunda að hafa alltaf númer eitt, tvö og þrjú friðhelgi og rétt sjúklinga. Ég held að það sé líka rétt að gera það í máli eins og hér er á ferðinni.

Aftur að reglugerðinni, ákvæði 24. gr. um reglugerð, mér finnst hún ekki kveða mjög nákvæmlega á um það — mér sýnist ráðherra hafa nokkuð frjálsar hendur með það hvernig hann kveður nánar á um færslu rafrænna sjúkraskráa, aðgang að þeim og aðgangsstýringu. Ég velti fyrir mér hvort til greina hafi komið af hálfu frumvarpshöfunda að hafa einhvers konar leiðbeiningar um hversu langt eigi að ganga í reglugerðinni, hvenær reglugerðin er komin svo langt að ástæða sé til að setja ákvæði af þessum toga í lagatextann. Vegna þess að ég sagði áðan að við skyldum hafa þetta nokkuð strangt þá held ég einnig að reglugerðarheimildin verði að vera nokkuð þröng og að eins lítið og hægt er sé skilið eftir handa ráðherranum til að meta. Það er vont fyrir ráðherrann (Forseti hringir.) og eðlilegt að löggjafinn komi að slíku.