136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[18:29]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru hárréttar ábendingar hjá hv. þm. Ólöfu Nordal en það er þetta einstigi sem stundum er svo erfitt að feta varðandi reglugerðarheimildir. Ljóst er að þegar kemur að reglugerðarheimild ráðherra þegar kemur að færslu sjúkraskráa er hann bundinn af þeim skýru skýringum sem fram koma í 6. gr. um að skrá eigi minna en meira og einungis eigi að skrá það sem tengist beint meðferð sjúklingsins. Þó að reglugerðarheimildin virki kannski í fljótu bragði rúm eru samt talsverðar girðingar bæði í lagatextanum og eins í skýringum með einstökum ákvæðum sem gera það að verkum, að mínu mati, að það er takmarkað hvað hægt er að setja í reglugerðina. Því að eins og við vitum þarf reglugerð alltaf að hafa mjög sterka og trygga lagastoð, ekki bara reglugerðarsetningin sjálf heldur líka efni reglugerðarinnar.

Af því að ég gat ekki alveg svarað því nægilega fyllilega í fyrra andsvari vil ég árétta um rétt sjúklings til að hafna aðgangi, að ég er hjartanlega sammála því sem hv. þm. Ólöf Nordal segir. Í svona máli eins og við erum núna að feta er miklu betra að byrja þrengra, opna bara gáttina örlítið og fara svo smátt og smátt að opna meira ef í ljós kemur að takmarkanirnar eru of miklar heldur en að byrja á því að galopna og fara svo að loka. Það er alltaf miklu erfiðara. Við samningu þessa frumvarps tel ég að okkur hafi tekist að feta þennan gullna meðalveg sem tryggir sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga en án þess þó að hætta meðferð hans, og ef hann vill kirfilega loka er alveg ljóst að hann er í raun að hafna meðferð. Ég held því að okkur hafi tekist að fara þennan mikilvæga meðalveg sem síðan (Forseti hringir.) í lokin hefur að leiðarljósi sjálfsákvörðunarrétt hans.