136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

niðurstöður PISA-kannana.

[10:44]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt, það er margt til að hafa áhyggjur af ef við lítum á PISA-kannanir, kannski ekki síst þá könnun sem sýndi að lesskilningur íslenskra nemenda var langt undir því sem við höfðum ætlað enda höfum við yfirleitt talað um okkur sem mikla bóka- og söguþjóð. Ein af skýringunum er sú að þó að hér hafi orðið mikil fjölgun nemenda á háskólastigi og mikil gróska á því stigi hefur um leið þeim fjölgað hægt sem ljúka meira en grunnskólaprófi. Innbyrðis munur í menntakerfinu er mikill hér á landi og það er áhyggjuefni sem ég tel að við þurfum að horfa á, við þurfum að líta til þessa grunns og hvernig við getum bætt hann.

Það eru auðvitað ýmis tækifæri núna, ekki síst eftir að ný lög voru sett og setja á nýja námskrá. Mín trú er í raun og veru að okkar kerfi sé mjög bóknámsmiðað þrátt fyrir allt okkar tal um starfsnám, listnám og annað slíkt. Ég held að færin séu kannski núna í því að innleiða meiri skapandi hugsun, gagnrýna hugsun. Ég hef veitt því eftirtekt að hún er hvergi nefnd á nafn, virðist vera, í námskrám almennt sem ég held að ekki sé vanþörf á. Og líka þessi skapandi hugsun og aukin áhersla á listnám og listmenntun sem er liður í því að efla fjölbreytni í menntakerfinu.

Þó að það sé rétt sem hv. þingmaður bendir á, að við höfum jafnt aðgengi sem við getum verið stolt af, við höfum góða kennara og góða skóla, er skorturinn kannski helst í því að fjölbreytnin sé næg. Þar þurfum við að líta til sóknarfæra og þau eru til staðar.

Svo vil ég líka minna á að því má aldrei gleyma þegar mældur er árangur í menntakerfinu að hann helst í hendur við það hvernig nemendum líður í skólunum. Það getum við þó sagt að þar höfum við staðið okkur vel, íslenskum nemendum líður vel í skólum ef tekinn er almennur samanburður og við þurfum einhvern veginn að tengja þá vellíðan yfir í betri árangur í skólunum og nýta það. Það sem kannski vantar líka er það sem kallað er hvatar, motívasjón, fyrir nemendur, að það sé gaman að læra og þeir ráði dálítið sjálfir hvaða aðferðir þeir (Forseti hringir.) nýti í þeim efnum í samráði við kennara sína.